Tólf ára drengur étinn af krókódíl

AFP

Lögregla leitar nú tólf ára drengs sem talið er að krókódíll hafi drepið í norðurhluta Ástralíu.

Ráðist var á drenginn þar sem hann var á sundi ásamt hópi fólks í Port Bradshaw, sem er í 80 km fjarlægð frá bænum Nhulunbuy, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Reyndu félagar drengsins að bjarga honum úr gini dýrsins en krókódíllinn synti á brott með drenginn. Segir lögregla að þetta sýni enn einu sinni hversu hættulegt það er að synda á opnum hafsvæðum í norðurhluta Ástralíu.

Einungis tvær vikur eru síðan sjö ára stúlka var étin af krókódíl annars staðar í N-Ástralíu. 

Krókódílar sem eru allt að sjö metrar að lengd og tonn á þyngd eru algengir í norðurhluta Ástralíu en þeir hafa verið friðaðir síðan á áttunda áratug síðustu aldar og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert