Heróín þýðir dauði

Heróínnotkun er vaxandi vandamál í Bandaríkjunum
Heróínnotkun er vaxandi vandamál í Bandaríkjunum AFP

Andlát bandaríska leikarans Philips Seymours Hoffmans hefur vakið athygli á vandamáli sem varað hefur verið við undanfarið í Bandaríkjunum - gríðarlegri aukningu í notkun heróíns sem vímugjafa.

Hoffman, 46 ára þriggja barna faðir, fannst látinn á baðherbergisgólfinu heima hjá sér á sunnudag með sprautunál í handleggnum.

Umslög, ýmist tóm eða full af heróíni, fundust í íbúðinni en nú er beðið niðurstöðu krufningar sem fór fram í gær til að hægt sé að staðfesta dánarorsök. Fáir eiga von á annarri niðurstöðu en of stórum skammti af heróíni.

Dauðsföllum af völdum of stórra skammta hefur fjölgað um 45%

Talsmaður lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (DEA), Joseph Moses, segir að heróínnotkun sé vaxandi vandamál í Bandaríkjunum. Dauðsföllum af völdum of stórra skammta af heróíni fjölgaði um 45% á tímabilinu 2006 til 2010 og magnið sem hald er lagt á á landamærum Mexíkós hefur tæplega fjórfaldast frá árinu 2008 til 2012.

Moses segir að heróínfíklarnir verði æ yngri og vandamálið sé ekki lengur bundið við stórborgir - heróínfíklar finnist alls staðar.

Hoffman er annar þekkti leikarinn sem deyr úr of stórum skammti af heróíni á stuttum tíma.

Glee-stjarnan Cory Monteith, 31 árs, lést af of stórum skammti af heróíni og áfengi á hóteli í Vancouver í júlí.

Í raun hefur heróín verið hálfgert bannorð í Bandaríkjunum allt frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar er New York-borg var mekka heróínistanna. Enda samdi Lou Reed lagið Heroin fyrir mörgum áratugum til borgarinnar. „Lyfið sem fær þig til þess að líða eins og þú sért sonur Jesú“ eins og stendur í textanum.

Heróín orðið ódýra dópið

Heróín og útbreiðsla HIV tengdust nánum böndum á níunda áratugnum og ekki jók það á vinsældir heróíns hversu ávanabindandi það er. En DEA segir að þetta sé að breytast. Helsta skýringin er aukin framleiðsla í Mexíkó, aukið smygl og það að fólk sem er háð lyfseðilsskyldum lyfjum er farið að færa sig í ódýrara dóp - heróín.

Þetta er leiðin sem Hoffman fór. Í fyrra játaði hann fyrir TMZ að hann væri farinn að nota heróín á ný eftir að hafa misnotað verkjalyf. Sagðist hann hafa verið laus undan áþján heróínfíknarinnar í tuttugu ár þegar hann féll.

„Heróín er dauðinn,“ segir Moses og bætir við að það sé ekkert sem heiti góður skammtur af heróíni eða slæmur. „En því miður þarf mjög hæfileikaríkur leikari að deyja til þess að fólk skilji þetta þrátt fyrir að við séum búin að sjá heróínneysluna aukast jafnt og þétt undanfarin ár.“

Samkvæmt upplýsingum úr bandarískri rannsókn (National Survey on Drug Use and Health) frá því í september hafði þeim Bandaríkjamönnum sem höfðu notað heróín árið á undan fjölgað úr 373 þúsund árið 2007 í 669 þúsund árið 2012.

Í síðustu viku lagði til að mynda lögreglan hald á 13 kíló af heróíni í Bronx-hverfinu í New York. Er efnið metið á átta milljónir Bandaríkjadala, tæpan milljarð króna.

Má bjóða þér NFL, iPhone, spaðaás eða hjartaás?

Eins gerði lögreglan upptæk hundruð þúsunda umslaga sem búið var að stimpla með t.d. NFL, iPhone o.fl. Umslögin sem fundust í íbúð Hoffmans voru merkt sem spaðaásinn og hjartaásinn og leitar lögregla nú dópsalans sem seldi leikaranum banvænan kokteil um helgina.

Eftir að greint var frá heróínfundinum í Bronx í síðustu viku sagði sérfræðingur hjá lyfjaeftirlitinu að búast mætti við fjölgun dauðsfalla meðal fíkla á næstu misserum og sérstakur saksóknari í eiturlyfjamálum í New York, Bridget Brennan, varar við því að heróínvandinn blasi við okkur. Vandinn sé alls staðar og sífellt berist fleiri fréttir af fíklum í vanda.

Dánartíðnin er hæst meðal aldurshópsins 45-54 ára þegar kemur að heróíni í New York og af þeim 115 þúsundum sem fá meþadon samkvæmt læknisráði í Bandaríkjunum búa 40 þúsund í New York.

En Hoffman er ekki einn á báti þegar of stórir skammtar af eiturlyfjum meðal Hollywoodleikara eru annars vegar. Má þar nefna John Belushi, sem var 33 ára þegar hann lést árið 1982. 

Bandaríska leikkonan Judy Garland var 47 ára þegar hún lést í Lundúnum af of stórum skammti árið 1969.

Whitney Houston, 48 ára, fannst látin í baðkari á  Beverly Hilton-hótelinu 2012.

Heath Ledger, 28 ára, lést í íbúð sinni árið 2008 af banvænni lyfjablöndu.

Marilyn Monroe, 36 ára, lést af of stórum skammti lyfja árið 1962.

Cory Monteith, 31 árs, lést af of stórum skammti af heróíni og áfengi 2013.

River Phoenix, 23 ára, lést á næturklúbbi í Los Angeles árið 1993 af of stórum skammti.

Leikkonan Jean Seberg var 41 árs er hún fannst látin í bifreið sinni í París 1979 en talið er að hún hafi framið sjálfsvíg með of stórum skammti af lyfjum og áfengi.

Philip Seymour Hoffman fannst látinn í íbúð sinni í New …
Philip Seymour Hoffman fannst látinn í íbúð sinni í New York EPA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert