Fjallgöngumenn streyma niður af Everest

Frá grunnbúðum á Everest.
Frá grunnbúðum á Everest. mbl.is/afp

Um helmingur leiðangra á tind Everest er horfinn úr grunnbúðum fjallsins og á niðurleið en óvissa ríkir áfram um hvort tilraunir verði gerðar til fjallgöngu í framhaldi af því að 16 leiðsögumenn úr röðum sjerpa biðu bana í snjóflóði.

Tveir Íslendingar sem ætluðu að klífa fjallið eru hættir við, þau Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson.

Tekist er á um skerf sjerpanna af miklum tekjum af erlendum fjallgöngumönnum sem til Nepal koma ár hvert til að reyna klífa hæsta fjall heims. Sjerpar vilja hærri þóknun fyrir sína vinnu og þeir hafa einnig krafist betri ráðstafana til björgunarstarfa og sjúkraskýli fyrir leiðsögumenn. Hafa þeir átt í viðræðum við fulltrúa stjórnvalda.

Snúi þeir hópar sem enn eru á fjallinu einnig niður gæti það þýtt að klifurtíðin í ár verði að engu. Ang Tshering, sjerpi og forseti Fjallgöngusambands Nepal, tjáði breska útvarpinu BBC, að sú gæti orðið raunin hverfi fleiri fjallgöngumenn á brott úr fjallinu.

Talsmaður ferðamálaráðuneytisins í Kathmandu kveðst hins vegar vona, að einhverjir klifurhópar muni halda áfram og leggja á tindinn.

Á fjórða hundrað erlendra fjallgöngumanna hafa verið að búa sig undir að klifra Everest í ár en spennan sem ríkt hefur í kjölfar snjóflóðs á föstudaginn langa hefur dregið kjark úr mörgum. Um 50 hópar voru í grunnbúðunum þegar flóði féll og stefndu 31 þeirra á tind Everest.

Nokkrir hópanna hafa kosið að fara í gönguleiðangra í Himalajafjöllum í stað þess að reyna við Everest. Hafa búnaður og birgðir verið bundnar á jakuxa til ferðar niður af fjallinu og þyrlur verið pantaðar til að fljúga fjallgöngumönnum burt. Enn bíða þó nokkrir hópar enn í grunnbúðunum og bíða hvað gerist í málefnum sjerpanna. Stjórnvöld hafa tilkynnt, að leyfi til hópanna til klifurs muni gilda til næstu fimm ára.

Snjóflóðið er hið mannskæðasta á Everest í seinni tíð. Féll það í 5.800 metra hæð yfir sjávarmáli, rétt fyrir ofan grunnbúðirnar á fjallinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert