Árásarmannanna enn leitað

Lögreglan í Kaupmannahöfn leitar enn tveggja árásarmanna sem hófu skothríð í leikhúsinu Krudttønden fyrr í dag. Hún yfirheyrir nú þá fimmtíu manns sem voru gestir á ráðstefnunni þegar skotárásin var gerð.

Bíllinn sem árásarmennirnir notuðu til að flýja af vettvangi fannst um þremur kílómetrum frá leikhúsinu. Hann var mannlaus. Lögreglan í Kaupmannahöfn hafði lýst eftir bílnum, dökkum Volkswagen Polo. 

Danska lögreglan hefur staðfest að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða. Hún hafi fyrst og fremst beinst að sænska teiknaranum Lars Vilke sem hefur teiknað umdeildar skopmyndir af spámanninum Múhameð í hundslíki.

Sendiherra Frakklands í Danmörku var einnig á meðal ráðstefnugesta. Hann segir að markmið árásármannanna hafi verið það sama og þeirra sem réðust á ritstjórnarskrifstofur franska tímaritsins Charlie Hebdo í seinasta mánuði.

Palle Vedel, sem var á ráðstefnunni, ræddi við fréttamenn fyrir utan leikhúsið síðdegis í dag. Hann sagði að fólk hefði orðið hrætt þegar árásarmaður hafi skotið úr sjálfvirkri byssu sinni í anddyri leikhússins. Þá voru um fimmtán mínútur liðnar af fundinum.

„Ég varð hræddur, fór inn í eldhúsið og faldi mig á bak við vegg þar. Þar hringdi ég í neyðarlínuna,“ sagði hann. Hann hafi síðan fært sig yfir í kaffisal leikhússins, þar sem félagar sínir voru. „Þeir skutu í gegnum glerið og inn til okkur. Sem betur fer náðum við að kasta okkur á gólfið.“

Einn lét lífið, fertugur karlmaður, og þrír lögreglumenn særðust í skotárásinni. Þeir eru ekki taldir í lífshættu. Um fimmtíu manns voru á ráðstefnunni til þess að ræða um tjáningarfrelsi og guðlast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert