„Þetta eru mikil tímamót“

Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna 78 hér til vinstri ásamt …
Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna 78 hér til vinstri ásamt stjórn Samtakanna. Mynd/Gayice.is - Frosti Jónsson

„Ég fagna þessu mjög, þetta eru mikil tímamót og stór tíðindi, ekki síst í sögulegu samhengi,“ segir Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður samtakanna 78, um niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna um hjónabönd samkynhneigðra.

„Mér þykir ekki ólíklegt að þetta muni hafi mikil áhrif í heiminum. Bandaríkin eru stórveldi og það er mikið fylgst með þeim. Það hefur verið mikið rætt um þetta í Bandaríkjunum á undanförnum árum en þetta markar ákveðinn endapunkt,“ segir Hilmar.

Hæstiréttur Bandaríkjanna sló því í dag föstu í dómi sínum í fjórum málum að rétturinn til ganga í hjónaband væri stjórnarskrárvarinn. 

Sjá frétt mbl.is: Hjónabönd samkynhneigðra lögleg í Bandaríkjunum

Hilmar segist hafa fylgst vel með baráttunni. „Mörg okkar í Samtökunum eigum vini og kunningja í Bandaríkjunum þannig að við höfum getað fylgst með þessu í gegnum Facebook og í heimsóknum þangað. Þetta er langþráður draumur að verða að veruleika fyrir mörgum, sérstaklega því þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem tekur á alríkinu, ekki bara einstöku ríki.“

Hann segir þó jafnréttisbaráttuna eiga langt í land vestanhafs. „Það eru önnur vandamál til staðar eins og hatursglæpir og málefni transfólks sérstaklega og viðhorf fólks. Þetta er langur listi.“

Hæstiréttur getur þó hafa lyft grettistaki í þessum málaflokki því niðurstöður skoðanakannana vestanhafs sýna að þegar ríki hafa lögleitt hjónabönd fólks af sama kyni, hefur viðhorf fólks til slíkra hjónabanda snarbatnað. 

„Ég hef fylgst með viðhorfskönnunum í Bandaríkjunum undanfarin ár og ástandinu nú er ekki að jafna við ástandið fyrir tíu árum. Það er miklu meiri stuðningur núna. Þar hefur skipt miklu máli að í hvert skipti sem ríki hefur lögleitt slíka réttarbót hefur það vakið mikið umtal og fengið mikinn stuðning. Síðan skiptir máli að hafa stjórnvöld sem tala fyrir mannréttindum,“ segir Hilmar. 

Mikil fagnaðarlæti brutust út fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna eftir niðurstöðuna.
Mikil fagnaðarlæti brutust út fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna eftir niðurstöðuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert