Aðeins forsmekkur flóttamannastraums framtíðar

Elon Musk, eigandi SpaceX og Tesla.
Elon Musk, eigandi SpaceX og Tesla. AFP

Flóttamannastraumurinn frá Mið-Austurlöndum og Afríku sem heimurinn stendur nú frammi fyrir er aðeins forsmekkur þess sem er í vændum ef mannkynið aðhefst ekkert til þess að sporna við loftslagsbreytingum. Þetta segir tæknifrömuðurinn Elon Musk sem telur bruna jarðefnaeldsneytis „heimskulegustu tilraun sögunnar“.

Straumur flóttamanna frá átaksvæðum, einkum frá Sýrlandi, er talinn sá mesti í heiminum frá seinni heimsstyrjöldinni. Musk gerði hann að umtalsefni á viðskiptaþingi í Berlín á miðvikudag.

„Núna snýst áskorunin um milljónir manna en í framtíðinni, miðað við samhljóða álit vísindamanna, verður vandamálið hundruð milljóna manna og mun alvarlegra,“ sagði stofnandi rafbílaframleiðandans Tesla og geimferðafyrirtækisins SpaceX.

Hann sagði margt um að vera í veröldinni sem væri mikilvægt og krefðist athygli fólks en hann sagðist telja mikilvægt að spyrja hvaða vandamál væri það brýnasta til lengri tíma litið.

„Það er mjög brýnt að við grípum til aðgerða strax og viðurkennum að við séum að valda umtalsverður breytingum á efnasamsetningu andrúmsloftsins og hafanna sem er ómögulegt að snúa við. Ég held að þegar við lítum til baka til þessa daga í framtíðinni munum við vilja geta sagt að við höfum gripið til réttra aðgerða,“ sagði Musk.

Volkswagen-hneykslið kom einnig til umræðu á þinginu og sagði Musk það vissulega slæmt að þýski bílaframleiðandinn hafi svindlað á útblástursprófum sem mæla útblástur dísibíla. Heimsbyggðin ætti hins vegar að einbeita sér að því að losa sig við kolefnislosun algerlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert