Engir Íslendingar í Fort McMurray

Þessi mynd frá kanadíska varnarmálaráðuneytinu var tekin frá þjóðvegi 63. …
Þessi mynd frá kanadíska varnarmálaráðuneytinu var tekin frá þjóðvegi 63. Hún sýnir hinn gríðarlega reyk sem kemur frá Fort McMurray. AFP

Hallgrímur Benediktsson, ræðismaður Íslands í Calgary og suðurhluta Albertafylkis í Kanada, segist ekki vita til þess að Íslendingar séu búsettir í bænum Fort McMurray, þar sem neyðarástand ríkir vegna mikilla skógarelda.

„Ég hef spurst fyrir um hvort einhverjir Íslendingar hafi verið við störf eða eru búsettir í Fort McMurray, en svo virðist ekki hafa verið," segir Hallgrímur í samtali við mbl.is.

Um 100 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín í bænum, sem er umkringdur eldi. 

Eldurinn byrjaði að loga á laugardagseftirmiðdag fyrir viku síðan og uppgötvaðist nánast strax. Slökkvistarfið hófst um leið en eldurinn breiddist engu að síður hratt út. Hann er núna talinn vera að nálgast 2.000 ferkílómetra.

Fjöldi heimila hefur eyðilagst í bænum.
Fjöldi heimila hefur eyðilagst í bænum. AFP

Skógurinn orðinn eldfimur

„Þarna hafði engin úrkoma verið í tvo mánuði og veturinn hér hefur verið óvenju hlýr og snjóléttur, svo skógurinn var orðinn afar eldfimur,“ segir Hallgrímur. „Trén eru afar þurr, þar sem frost er enn í jörðu eða tiltölulega nýfarið, svo þau eru ekki farin að taka við sér.“

Að sögn Hallgríms hafa flestir sem hafa flúið Fort McMurray fengið hæli í Edmonton. „Margir hafa misst allt sitt. Það eru ekki enn komnar nákvæmar tölur um hvað skaðinn er mikill, nema að hann er gífurlegur.“

AFP

Stjórnlaust ástand

Óttast var að skógareldarnir myndu tvöfaldast að umfangi í dag. „Þessi eldsvoði er ennþá bæði stjórnlaus og hættulegur,“ sagði öryggismálaráherra Kanada, Ralph Goodale.

Síðastliðinn sólarhring hefur svæðið sem eldarnir hafa logað stækkað um 50%.

„Ég get spáð einu. Ef þetta heldur áfram á þessum hraða getur þetta tvöfaldast í dag,“ sagði Goodale.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert