Sér ekki fyrir endann á stórbrunanum

Lögregla fór fyrir bílalestum gegnum bæinn Fort McMurray í gær, …
Lögregla fór fyrir bílalestum gegnum bæinn Fort McMurray í gær, en 2.000 heimili hafa orðið eldinum að bráð. AFP

Kanadíska lögreglan fór í gær fyrir bílalest gegnum bæinn Fort McMurray, sem má kalla brennandi draugabæ, þar sem gríðarmiklir eldar hafa leikið svæðið grátt síðustu daga. Þúsundir freistuðu þess að komast í öruggan enda borgarinnar en yfirvöld segja mögulegt að eldarnir tvöfaldist að stærð í dag.

Að sögn Chad Morrison, framkvæmdastjóra forvarna hjá umhverfissviði Alberta, mun ekki takast á ná tökum á eldinum fyrr en eftir langan tíma, eða þegar umtalsverð rigning verður á svæðinu. Veðurstofa Kanada segir 30% líkur á rigningu á morgun, og möguleika á regni síðar í næstu viku.

Bílalestunum sem fóru gegnum Fort McMurray í gær töldu um 50 bifreiðar hver og fóru á 50-60 km hraða. Lögregla tók sér stöðu við gatnamót til að koma í veg fyrir að fólk freistaði þess að taka krók til að bjarga verðmætum.

Um 100.000 manns búa í bænum, sem er umkringdur eldi.

Fólkið sem verið var að flytja á brott flúði heimili sín í síðustu viku og hafðist við í búðum starfsmanna olíufyrirtækja á svæðinu. Það var hins vegar niðustaða yfirvalda að rýma þyrfti svæðið vegna breytilegrar vindáttar sem gerði það að verkum að fólkið kynni að verða innilokað.

Um 8.000 voru fluttir með þyrlum og flugvélum á fimmtudag en gert er ráð fyrir að það muni taka um fjóra daga að flytja restina af fólkinu burtu landleiðina. Um 17.000 manns eru enn á svæðinu.

Margarita Carnicero var meðal þeirra fyrstu sem komst í skjól sunnan við Fort McMurray. Hún segist hafa óttast um líf sitt á leiðinni.

„Þetta var hræðileg lífsreynsla,“ sagði hún í samtali við AFP, þar sem hún sat í skítugri bifreið sinni ásamt dóttur sinni Michelle. „Ég var óttaslegin en reyndi að sýna það ekki til að hræða ekki dóttur mína.“

Greg Stengel, starfsmaður olíufyrirtækis, segir ferðina hafa reynst erfiða vegna reyksins sem liggur yfir bænum.

Ekkert stendur eftir nema húsgrunnar í þessu íbúðahverfi í Fort …
Ekkert stendur eftir nema húsgrunnar í þessu íbúðahverfi í Fort McMurray AFP

Sjónvarpsupptökur hafa sýnt hvernig leiðin út úr bænum hefur verið vörðuð trjám sem standa í ljósum logum. Eldglæður svífa í loftinu og falla eins og heit, appelsínugul rigning.

Stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarástandi í Alberta, landsvæði á stærð við Frakkland. Mikil olíuvinnsla er á svæðinu en lítið regn hefur fallið þar undanfarið og óvenju heitt verið í veðri.

Fleiri en 1.100 slökkviliðsmenn berjast við 49 aðskilda elda, en hafa engar hömlur á sjö þeirra. Eldarnir hafa lagt undir sig 100.000 hektara, eða 1.000 ferkílómetra, og læst klónum í 2.000 heimili í Fort McMurray.

Yfirvöld gera ráð fyrir að langur tími muni líða þar til íbúar bæjarins geta snúið heim.

Yfir 1.000 slökkviliðsmenn berjast við nær 50 elda, en hafa …
Yfir 1.000 slökkviliðsmenn berjast við nær 50 elda, en hafa enga stjórn á sjö þeirra. Það mun taka langan tíma að slökkva eldana, að sögn yfirvalda sem vonast nú eftir kröftugum skúr. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert