20% heimila borgarinnar ónýt

Um fimmtungur heimila í kanadísku borginni For McMurray er ónýtur eftir gífurlega skógarelda sem geisa á svæðinu. Þingmaður svæðisins, David Yurdiga, sagði í samtali við blaðamenn í gær að það gætu liðið mörg á þar til borgin hefði jafnað sig eftir náttúruhamfarirnar.

Rúmlega 100.000 íbúar borgarinnar og svæðisins í kring hafa þurft að flýja heimili sín vegna eldanna. Að sögn embættismanna hefur hægst á eldinum um helgina en hann hefur nú logað í rúma viku.

Yurdiga sagði í gær að þó svo að stærstur hluti borgarinnar væri í lagi væri ekki enn óhætt fyrir íbúa að snúa heim. Sagði hann ástand borgarinnar þó betra en hann bjóst við þar sem flest húsin standa enn og eru óskemmd.

Hægt var að þakka móður náttúru og veðri ásamt dugnaði slökkviliðsmanna um að ekki fór verr að sögn slökkvistjórans Chad Morrison í gær. Sagði hann þó að margir mánuðir gætu liðið áður en næðist að slökkva eldinn að fullu.

Vegna vindáttar í austur fer eldurinn nú frá bæjum og borgum á svæðinu en gæti þó farið yfir í næsta fylki við Alberta, Saskatchewan.

Enginn hefur látið lífið eða slasast í eldunum en tveir létu lífið í umferðarslysum sem tengd voru við rýminguna frá Fort McMurray.

Talið er að eldarnir séu dýrustu náttúruhamfarir í sögu Kanada en tjónið er nú þegar metið á milljarða Kanadadala. Fort McMurray er í hjarta olíuvinnslusvæði Kanada sem er þriðja stærsta olíuvinnslusvæði heims.

Eldarnir eru taldir hafa áhrif á efnahag landsins þar sem allt að fjórðungur olíuframleiðslu landsins hefur frestast vegna þeirra.

Frétt BBC.

Lögreglukona að störfum við hraðbraut nálægt Fort McMurray í gær.
Lögreglukona að störfum við hraðbraut nálægt Fort McMurray í gær. AFP
Svartur reykur stígur til himins nálægt Fort McMurray í gær.
Svartur reykur stígur til himins nálægt Fort McMurray í gær. AFP
Um er að ræða dýrustu náttúruhamfarir í sögu Kanada.
Um er að ræða dýrustu náttúruhamfarir í sögu Kanada. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert