Afneita syni sínum

Enes Kanter.
Enes Kanter.

Fjölskylda tyrknesku körfuboltastjörnunnar Enes Kanter hefur fordæmt hann og sagst ekkert vilja með hann hafa. Ástæðan er sú að Kanter hefur lýst yfir hollustu sinni við klerkinn Fethullah Gülen, sem tyrknesk stjórnvöld saka um að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni misheppnuðu í Tyrklandi í síðasta mánuði.

Kanter, sem spilar fyrir Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í Bandaríkjunum, hefur verið stuðningsmaður Gülens til margra ára. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur krafist þess að Gülen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, verði tafarlaust framseldur til Tyrklands og látinn þar svara til saka.

Í gær birtu tyrkneskir fjölmiðlar bréf sem faðir Kanter, Mehmet, skrifaði þar sem hann afneitar syni sínum og segir hann hafa verið “dáleiddan” af Gülen og hreyfingu hans.

„Það er af mikilli skömm sem ég bið forsetann okkar og tyrknesku þjóðina afsökunar á því að hafa átt son sem þennan,“ skrifaði Mehmet meðal annars.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Hinn 24 ára Kanter, sem á að baki fimm tímabil í NBA-deildinni, brást við bréfinu í morgun og lýsti á Twittersíðu sinni yfir hollustu við hreyfingu Gülens, Hizmet.

„Í dag missti það sem ég kallaði í 24 ár fjölskyldu mína. Minn eigin faðir bað mig um að breyta nafni mínu. Móðirin sem fæddi mig afneitaði mér,“ sagði Kanter.

Hann hefur margoft gagnrýnt tyrknesk stjórnvöld og einræðistilburðum Erdogans. Í fyrra hélt hann því meðal annars fram að hann hefði ekki verið valinn í tyrkneska körfuboltalandsliðið vegna pólitískra skoðana sinna. Landsliðsþjálfarinn vísaði því hins vegar á bug.

Segja má að tyrkneska þjóðin sé klofin vegna valdaránstilraunarinnar sem reynd var í Tyrklandi í síðasta mánuði. 240 manns létu lífið og yfir 2.200 særðust þegar hluti tyrkneska hersins reyndi að taka völdin af Erdogan forseta. Í kjölfarið hafa tyrknesk stjórnvöld handtekið eða rekið úr starfi þúsundir Tyrkja, þar á meðal hermenn, kennara, lögreglumenn, saksóknara og dómara.

Margir Tyrkir hafa lýst yfir stuðningi við þessar hreinsanir Erdogans og sagt þær nauðsynlegar til þess að eyða þeirri „veiru“ sem tekið hefur bólfestu í tyrkneska stjórnkerfinu á umliðnum árum. Aðrir segja að Erdogan hafi aðeins nýtt tækifærið til þess að styrkja valdastöðu sína.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert