Teikn um sigur Trumps í Norður-Karólínu

Báðir frambjóðendurnir hafa lagt áherslu á að ná til kjósenda …
Báðir frambjóðendurnir hafa lagt áherslu á að ná til kjósenda í Norður-Karólínu. Svo virðist sem Trump kunni að fara með sigur af hólmi í ríkinu. AFP

Menn deila um ýmislegt í tengslum við forsetakosningarnar vestanhafs en virðast sammála um eitt: ef Hillary Clinton ber sigur úr býtum í Norður-Karólínu, þarf Donald Trump að tryggja sér kjörmenn allra hinna barátturíkjanna til að komast í Hvíta húsið.

Góðu fréttirnar fyrir viðskiptajöfurinn eru þær að svo virðist sem staða Clinton í ríkinu sé ekki jafn góð og Obama árið 2012, ef horft er til utankjörfundaratkvæða.

Clinton má vel við því að tapa Norður-Karólínu en demókratar hafa hins vegar rennt hýru auga til ríkisins í kosningabaráttunni. Clinton hefur haft forystu í flestum skoðanakönnunum þar frá því í sumar og fyrir tólf dögum mældist hún með 7 prósentustiga forskot á Trump samkvæmt könnun New York Times.

Samkvæmt samantektarkönnun CNN er forskot hennar nú 4 stig.

Greining CNN á utankjörfundarþátttöku dregur hins vegar upp aðra mynd og bendir til þess að Clinton standi verr að vígi en Obama gerði 2012 og Trump betur en Mitt Romney, sem var forsetaefni Repúblikanaflokksins í síðustu kosningum.

Clinton þarf ekki nauðsynlega á því að halda að taka …
Clinton þarf ekki nauðsynlega á því að halda að taka Norður-Karólínu, en sigur þar myndi allt að því gera út um möguleika Trump. AFP

Um 1,3 milljónir demókrata hafa þegar kosið í Norður-Karólínu, samanborið við 990.000 repúblikana. En þessar tölur segja ekki allt. Þrátt fyrir forskot Obama 2012, vann Romney öruggan sigur í ríkinu þegar kom að kjördegi.

Frá og með laugardegi, þegar utankjörfundaratkvæðagreiðslunni lauk, höfðu aðeins færri demókratar kosið en 2012, en 125.000 fleiri repúblikanar. Ef þróunin á kjördag verður eins og þegar Obama og Romney öttu kappi, mun Trump fara með sigur af hólmi.

Hins vegar er einn þáttur sem flækir málin; 810.000 óháðir tóku þátt í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni, en það er aukning um 42% frá 2012.

Þá voru óháðir líklegri til að styðja Romney en Obama, en hann var „hefðbundnari“ repúblikani en Trump og hefur verið einn harðasti gagnrýnandi fasteignajöfursins í yfirstandandi kosningabaráttu.

Önnur breyting frá því síðast er sú að einn þriðja-flokks frambjóðandi, Gary Johnson, nýtur töluverðra vinsælda og talinn munu fá 5% atkvæða.

Trump hefur einnig eitt annað umfram Hillary í Norður-Karólínu; á meðan hlutfall svartra kosningaþátttakenda hefur minnkað um 5% frá 2012, hefur hlutfall hvítra aukist um 22%. Svartir eru líklegri til að kjósa Clinton en Trump sækir stuðning sinn að mestu til hvítra kjósenda.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert