Vernda þarf og viðhalda frelsinu

Michelle Obama, fráfarandi forsetafrú Bandaríkjanna, hvatti unga Bandaríkjamenn til þess að óttast ekki framtíðina heldur berjast fyrir því að hún yrði góð í ræðu sem hún flutti í Hvíta húsinu í Washington, höfuðborg landsins, í dag. Obama mun láta af embætti sem forsetafrú 20. janúar þegar eiginmaður hennar, Barack Obama, lætur af embætti forseta Bandaríkjanna. Sama dag verður kaupsýslumaðurinn Donald Trump settur formlega í embættið.

Obama minnti unga fólkið á að Bandaríkin tilheyrðu þeim öllum óháð því hver bakgrunnur þess væri. „Það að vera forsetafrú var mesti heiður sem ég hef notið á ævi minni,“ sagði hún. Obama lagði meðal annars áherslu á heilbrigt líferni, menntun stúlkna og hagsmuni fjölskyldna hermanna. En mest áhrif hafði hún sem fyrirmynd fólks sem tilheyrir minnihlutahópum að því er segir í frétt AFP um ræðu hennar.

Obama sagði enn fremur að innflytjendur til Bandaríkjanna væru hluti af langri bandarískri hefð. „Með mikilli vinnu og góðri menntun er allt mögulegt, þar á meðal að verða forseti. Um það snýst ameríski draumurinn,“ sagði hún og minnti um leið á að trúarleg fjölbreytni væri einnig hluti af bandarískri menningu. Fjölbreytnin gerði Bandaríkjamenn að því sem þeir væru. 

„Þið getið ekki tekið frelsinu sem sjálfsögðum hlut. Þið verðið að gera ykkar til þess að vernda og viðhalda frelsinu,“ sagði hún og enn fremur. „Verið ekki hrædd, verið einbeitt, verið staðráðin, verið kraftmikil [...] sýnið gott fordæmi, í gegnum von, aldrei ótta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert