Dóttir drepin og konu nauðgað

Barn okkar var drepið og eiginkonu minni var nauðgað, segir Joshua Boyle sem var rænt ásamt eiginkonu sinni, Caitlan Colemanm þegar þau voru á bakpokaferðalagi í Afganistan árið 2012. Fjölskyldan var látin laus í vikunni og kom heim til Kanada í gærkvöldi.

Caitlan Coleman, sem er bandarísk og Joshua Boyle, sem er kanadískur, voru í haldi Haqqani, arms vígasamtaka talibana í Afganistan í fimm ár. Þau lentu á flugvellinum í Toronto ásamt þremur börnum sínum seint í gærkvöldi.

„Augljóslega er það gríðarlega mikilvægt fyrir fjölskylduna að geta búið börnum okkar öruggt heimili,“ segir Boyle en hann ræddi við fréttamenn á flugvellinum. 

Pakistanskir hermenn björguðu fjölskyldunni í norðvesturhluta landsins, skammt frá landamærum Afganistan. Bandarísk yfirvöld hafa lengi sakað Pakistana um dugleysi þegar kemur að því að uppræta Haqqani-samtökin.

Caitlan Coleman og Joshua Boyle.
Caitlan Coleman og Joshua Boyle. AFP

„Heimska og illska Haqqani samtakanna - að ræna pílagrímum stendur í skugganum af þeirri illmennsku og heimsku sem felst í að fyrirskipa morð á nýfæddri dóttur minni.“ sagði Boyle þegar hann las yfirlýsi fjölskyldunnar af blaði fyrir fréttamenn á flugvellinum.  

„Og heimskan og illmennskan sem síðar kom, að nauðga eiginkonu minni, ekki bara einu sinni, af einum varðanna með aðstoð yfirmanns fangavarðanna að fyrirskipan herforingjans,“ sagði Boyle án þess að útskýra nánar um morðið og nauðgunina. Coleman var ekki með honum á fundinum með fréttamönnum.

Óforsvaranlegt að fara til Afganistan

Faðir Coleman segir að ákvörðun þeirra hjóna, dóttur hans og tengdasonar, að fara til Afganistan á sínum tíma hafi verið óforsvaranleg. Foreldrar þeirra beggja gagnrýndu harðlega á sínum tíma ákvörðun þeirra að fara til Afganistan yfir höfuð. 

„Það sem ég get sagt er að að ef þú ferð með þungaða eiginkonu þína á mjög hættulegar slóðir er fyrir mér óforsvaranlegt,“ sagði Jim Coleman í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina eftir að tilkynnt var um að þeim hafi verið bjargað á miðvikudag. „Ég get ekki ímyndað mér að slíkt myndi hvarfla að mér. En ég held að ég vilji ekki tjá mig frekar um þetta.“

Fóru með hjálpargögn

Boyle sagði við fréttamenn á Pearson flugvellinum í Toronto í gærkvöldi að þau hafi verið að reyna að koma hjálpargögnum til þorpsbúa á svæðinu sem þeim var rænt en talibanar ráða yfir hluta þess. Þar hafi engir hjálparstarfsmenn verið að störfum, engin hjálpargögn og stjórnvöld hafi ekki sinnt íbúum á þessu svæði á nokkurn hátt.

Yfirráðasvæði Haqqani
Yfirráðasvæði Haqqani

Coleman var komin langt á leið þegar þeim var rænt en um þeirra fyrsta barn var að ræða. Börnin þrjú sem þau komu með úr haldi eru því öll fædd í haldi vígasamtakanna og er það yngsta við mjög slæma heilsu.

Að sögn Boyle var fjórða barn þeirra, dóttir, drepin af liðsmönnum Haqqani. Í frétt AP kemur fram að í fluginu til Kanada hafi Coleman setið með tvö eldri börnin á viðskiptafarrými en Boyle hafi setið með yngsta barnið í fanginu. Fulltrúar bandarískra yfirvalda voru með þeim í för en þeim var bjargað af hermönnum eftir ábendingu frá bandarískum yfirvöldum um hvar þau væri að finna.

Fjölskyldan er á leið til fjölskyldu Boyle í Smiths Falls, 80 km suðvestur af Ottawa, þar sem foreldrar hans búa. Yfirvöld í Kanada hafa heitið því að styðja fjölskylduna áfram en þau hafa fylgst grannt með máli þeirra. 

Samkvæmt heimildum BBC neitaði Boyle  að fara um borð í flugvél Bandaríkjahers í Pakistan. Um er að ræða tvo heimildarmenn úr bandaríska stjórnkerfinu en Boyle þvertók fyrir þetta þegar rætt var við hann í gær. 

Boyle var áður kvæntur systur Omar Kadhr, Kanadamann sem sat í tíu ár í fangabúðum Bandaríkjahers við Guantanamó-flóa á Kúbu. Hann var handtekinn í Afganistan þar sem hann barðist við vígamönnum gegn Bandaríkjaher.

Frétt Guardian

Frétt BBC

Frétt Washington Post

Frétt CNN

Caitlan Coleman og Joshua Boyle ásamt sonum sínum.
Caitlan Coleman og Joshua Boyle ásamt sonum sínum. Stilla úr myndskeiðinu sem foreldra Caitlan birtu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert