362 látnir úr kórónaveiru

Yfir 360 eru látnir úr kórónaveirunni sem á upptök sín í kínversku borginni Wuhan. Alls létust 57 síðasta sólarhringinn og hafa ekki verið svo margir á einum sólarhring frá því veiran kom upp seint á síðasta ári. Smit hafa verið staðfest í á þriðja tug landa og hafa margar ríkisstjórnir gripið til þess ráðs að banna ferðalög til Kína. Allir þeir 57 sem staðfest er að hafi látist úr 2019-nCoV-veirunni síðasta sólarhringinn létust í Wuhan fyrir utan einn.

Á meginlandi Kína er alls 361 látinn úr veirunni sem eru fleiri en létust þar úr SARS árið 2002-2003. 

Hundruð starfsmanna á sjúkrahúsum í Hong Kong eru í verkfalli þar sem þeir krefjast þess að landamærum að meginlandi Kína verði lokað til að draga úr hættunni á að kórónaveiran breiðist enn frekar út. Fimmtán smit hafa verið staðfest í borginni. 

Yfir 17 þúsund smit hafa verið staðfest í Kína. Utan Kína eru staðfest smit 150 talsins og einn er látinn á Filippseyjum. 

Embætti ríkislögreglustjóra lýsti í síðustu viku yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV).

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (meðal annars fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða (eins og MERS-sýkingin í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS-sýkingin frá Kína á árunum 2002-2003). SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu.

Alls létust 774 af völdum SARS en flestir þeirra sem létust annars staðar en á meginlandi Kína, létust í Hong Kong.

Efnahagsleg áhrif veirunnar eru gríðarleg. Ekki síst vegna þess að fjölmörg fyrirtæki í Kína hafa þurft að loka til að koma í veg fyrir smit á milli fólks. Dregið hefur úr ferðalögum á heimsvísu og takmarkanir á flugferðum og siglingum hafa mikil áhrif á viðskipti milli landa. Helstu hlutabréfavísitölur í Sjanghaí og Shenzhen lækkuðu um tæp 9% í dag en þetta er fyrsti viðskiptadagurinn þar eftir kínverska nýárið.  

Heilbrigðisráðherra Frakklands, Agnes Buzyn, segir að 36 farþegar um borð í flugvél sem flutti franska ríkisborgara frá Wuhan hafi verið með einkenni smits og eru þeir undir eftirliti. Í dag kemur í ljós hvort um smit sé að ræða. Alls voru 254 Frakkar fluttir frá Wuhan í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert