Segir Pútín gera söguleg mistök

Vladimir Pútín.
Vladimir Pútín. AFP

Fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright sem er á 85. aldursári, skrifaði grein í New York Times í gær þar sem hún fór yfir samskipti sín við Vladimír Pútín forseta Rússlands.

Hún hitti hann fyrst í forsetatíð Bill Clintons, árið 2000 og kveðst hafa tekið strax eftir því hvað hann var ólíkur fyrirrennara sínum, hinum fjöruga Boris Jeltsín, og skynjaði að þar hefði KGB-bakgrunnur Pútíns áhrif.

Pútín flaðraði og daðraði ekki eins og fyrirrennari hans, heldur talaði kalt og yfirvegað um fyrirætlanir sínar og Albright punktaði hjá sér að hann „væri lítill og fölur og kaldur eins og eðla“. Undanfarna þrjá mánuði hafa þessi fyrstu viðkynni verið henni í huga.

Hún skrifar að Pútín hafi tekið sér aðferðafræði Stalíns til fyrirmyndar á kostnað lýðræðisins og að hann hanni sína eigin „söguskoðun“ um Úkraínu til að réttlæta gjörðir sínar.

Það gæti þó ekki orðið Rússlandi til góðs, heldur gæti þjappað vestrænum ríkjum saman gegn honum, enda væru þjóðhöfðingjar Vesturlanda að keppast um að fordæma Pútín og boða refsiaðgerðir. Það þýði líka að það skapast mikil þörf á því að Evrópa sé ekki háð Rússum um eldsneyti.

Madeleine Albright fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, meðan hún enn sinnti störfum.
Madeleine Albright fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, meðan hún enn sinnti störfum. mbl.is

Verði enn háðari Kína

Hún segir líka að ef Pútín sé að lenda upp á kant við Vesturlönd þá verði Rússar ennþá háðari stuðningi Kína. Hún segir að í samtali við Pútín á sínum tíma hafi hann tekið það skýrt fram að Rússland yrði að vera hluti af evrópska samfélaginu, ekki síst út af menningarlegum tengslum.

Þetta gæti orðið flókin staða, en hún viti að Pútín muni aldrei viðurkenna mistök, en hann geti bæði verið þolinmóður og jarðbundinn. En ef hann upplifi sig í ógöngum geti hann engum um kennt nema sér sjálfum. 

Albright klikkir út með að þótt bæði Pútín og Xi Jinping, forseti Kína, sjái valdastrúktúr heimsins sem samspil sterkra ofurvelda, gefi það ekki leyfi til að skipta heiminum í umráðasvæði stórvelda að hætti nýlendutímabilsins. Úkraína eigi rétt á sínu sjálfstæði og nútímastórveldi verði að viðurkenna það. 

„Það skilur á milli veraldar þar sem reglur gilda og annars heims sem viðurkennir engar leikreglur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert