Pútín varar við árásum á ný skotmörk

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur varað við því að stjórnvöld í Moskvu, höfuðborg Rússlands, muni gera árásir á ný skotmörk ef Vesturlönd láta Úkraínumönnum í té langdrægar eldflaugar.

Í samtali við rússneska fjölmiðla sagði hann einnig að nýjum vopnasendingum til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, væri ætlað að „framlengja átökin“.

Ef Kænugarður fær langdrægar eldflaugar „munum við draga viðeigandi ályktanir og nota vopnin okkar...til að ráðast á skotmörk sem við höfum ekki ráðist á áður,“ sagði Pútín.

Hann tilgreindi þó ekki hver skotmörkin yrðu.

Bandaríkin greindu frá því í síðustu viku að þau ætluðu að senda háþróaðar eldflaugar til Úkraínumanna.

Úkraínskir hermenn ásamt skriðdreka í miðjum bardaga við Rússa. Úkraínski …
Úkraínskir hermenn ásamt skriðdreka í miðjum bardaga við Rússa. Úkraínski herinn útvegaði ljósmyndina en ekki er ljóst hvar eða hvenær hún var tekin. AFP

Rússar segjast hafa eyðilagt skriðdreka sem austur-evrópsk lönd hafa útvegað Úkraínumönnum í árásunum sem voru gerðar á Kænugarð í nótt.

„Nákvæmum langdrægum eldflaugum var skotið af rússneska lofthernum í útjaðri Kænugarðs og eyðilögðu þær skriðdreka af tegundinni T-72 sem þjóðir frá Austur-Evrópu útveguðu, ásamt vopnuðum faratækjum sem voru geymd í skýlum,“ sagði talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, Igor Konashenkov.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert