Nýir fulltrúar í stjórn Sigfúsarsjóðs

Sigfúsarsjóður, sem er sjálfseignarstofnun og hefur það hlutverk að styðja fjöldahreyfingu sósíalista á Íslandi, mun áfram styrkja Alþýðubandalagið við að losa sig við skuldir, að sögn Sigurjóns Péturssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins. Þær nema nú um 30 milljónum kr. að því er fram kom í samtalið við Margréti Frímannsdóttur fyrir skömmu.

Sigurjón segir aðspurður að ekkert hafi verið rætt hvernig stuðningi sjóðsins verður háttað í framtíðinni m.t.t. til þeirra breytinga sem orðið hafa með stofnun Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - grænsframboðs.

Framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins kýs meirihluta stjórnar sjóðsins og er hún nýbúin að kjósa fulltrúa sína í stjórn, að sögn Sigurjóns. Komu fjórir nýir fulltrúar inn í níu manna stjórn sjóðsins, þau Jóhann Ársælsson, Guðrún Sigurjónsdóttir, Haukur Már Haraldsson og Ari Skúlason.

"Það hefur verið rætt um að sjóðurinn muni áfram styrkja Alþýðubandalagið við að losa sig við þær skuldir sem það er í og það verður væntanlega næsta verkefni. Það er samkomulag um þetta," sagði Sigurjón.

Sigfúsarsjóður var stofnaður á sínum tíma sem stuðningsafl Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins. Þegar hann var lagður niður var stofnskrá sjóðsins breytt þannig að sjóðurinn skyldi styðja hvern þann sósíalískan fjöldaflokk sem taki við hlutverki Sósíalistaflokksins að dómi sjóðsstjórnar eða að vinna að framgangi sósíalismans á annan átt og var samþykkt að sú hreyfing skyldi vera Alþýðubandalagið.

VG hefur ekki gert tilkall til sjóðsins

Sigfúsarsjóður á í dag tvær húseignir, við Síðumúla 37 og húsnæði við Austurstræti 10, sem Alþingi er nú með á leigu. Sjóðurinn seldi fyrir nokkru eign sína í hluta hússins að Laugavegi 3.

"Við höfum í sjálfu sér ekki gert neitt tilkall til hans [Sigfúsarsjóðs] og það er ekkert á okkar könnu," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

"Mér er að vísu alveg kunnugt um stofnskrá Sigfúsarsjóðs og eftir hvaða reglum hann á að starfa en lít svo á að það sé frekar þeirra sem fara þar með forsvar að tryggja að vilji stofnandans sé virtur og að sjóðurinn starfi samkvæmt stofnsamþykkt sinni og hugsjón sem hann var grundvallaður á," segir Steingrímur.

"Alþýðubandalagið er jú til ennþá, a.m.k. að nafninu til og það var á sínum tíma samkomulag um að það væri sá flokkur sem hefði yfirtekið hlutverk Sósíalistaflokksins og það félli því að verkefni Sigfúsarsjóðs að leggja því til húsnæði. Nú geta menn svo sem velt því fyrir sér hvernig ætti að túlka aðstæður líðandi stundar en við höfum ekkert aðhafst í þeim efnum og ekki gert neitt tilkall í sjálfu sér til að hann fari að leggja okkur lið," sagði Steingrímur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert