Ákæru vegna hreindýraveiða vísað frá

Héraðsdómur Austurlands hefur vísað frá ákæru á hendur tveimur mönnum, sem gefið var að sök að hafa farið saman á hreindýraveiðar í landi Flateyjar á Mýrum í Hornafirði í september árið 2005 án veiðileyfa og skotvopnaleyfa og án leiðsagnar hreindýraeftirlitsmanns.

Þá var mönnunum gefið að sök að hafa fellt einn hreindýrstarf og auðkennt hann síðan í blekkingarskyni með merki hreindýraráðs, sem annar þeirra hafði tekið ófrjálsri hendi fyrr um daginn á heimili hreindýraeftirlitsmanns. Mönnunum var einnig gefið að sök að hafa sært hreindýrskálf til ólífis og skjóta þá með skotvopnum úr bíl.

Dómnum þótti ákæra í málinu ekki uppfylla kröfur, sem gerðar eru til skýrleika ákæru í lögum um meðferð opinberra mála. Þannig sé í ákærunni ekki greint á milli þátta mannanna í brotunum, en af gögnum málsins, m.a. framburðarskýrslum ákærðu, hafi þó eindregið mátt ráða að unnt hefði verið og rétt að greina á milli verknaðar hvors ákærða um sig.

Var ákærunni vísað frá og málskostnaður, sem nam 1,3 milljónum króna, felldur á ríkissjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert