Þyngri róður í ríkisrekstri

 Fjárlagagerð er vandasamt verkefni þetta árið vegna óvissu um tekjur og þrenginga í efnahagslífi. Kröfur á fjárlaganefnd Alþingis eru mótsagnakenndar, því krafist er aðhalds- sparnaðarfjárlaga á sama tíma og ríkið er hvatt til framkvæmda svo að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki.

„Auðvitað munu breytingar á tekjum og ýmsar sjálfvirkar hækkanir auka umfangið og gera verkefnið yfirgripsmeira en það var í fyrra. Rýna þarf í tölurnar mjög nákvæmlega, vegna óvissu,“ segir Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar sem fundar nú dagana langa,

Fjárlög 2009 verða kynnt á mánudag, en koma fram á þingi til fyrstu umræðu 3. okóber. Stíf vinna heldur þá áfram og gert er ráð fyrir að afgreiða fjárlög og fjáraukalög frá Alþingi dagana 8.-9. desember.

Fjárlaganefnd hefur hitt fulltrúa rúmlega 50 sveitarfélaga að undanförnu. „Þeir fundir eru meðal annars um einstök verkefni í héraði, safn og tengivegi, menningarmál, en einnig um áhyggjur sveitarfélaga af rekstri ríkisstofnana á staðnum. Lögregluembætti hafa áhyggjur, en við höfum átt greinargóð viðtöl við lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Olíukostnaður er eitt af því sem rætt er um í tengslum við löggæsluna. Hann leggst þungt á embættin sem benda á að fjárlögin hafi ekki gert ráð fyrir honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert