Sniðganga íslensku tónlistarverðlaunin

Hljómsveitin Hjaltalín.
Hljómsveitin Hjaltalín. mbl.is/Golli

Tónlistarmenn hjá Kimi Records, s.s. Benni Hemm Hemm, Reykjavík!, Hjaltalín, FM Belfast og Skakkamanage, hafa ákveðið að taka ekki þátt í íslensku tónlistarverðlaununum í janúar þar sem þeir eru andsnúnir fyrirkomulagi keppninnar.

Í tilkynningu frá Kimi Records segir að tónlistarmennirnir sjái sér ekki fært að taka þátt í keppni um tónlist og vilji ekki greiða fyrir það þátttökugjald. „Við teljum að íslensku tónlistarverðlaun ættu að vera verðlaun fyrir alla íslenska tónlist en ekki bara fyrir þá tónlist sem sækir um að vera íslensk tónlist,“ segir m.a. í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að ætlunin sé ekki að vega að íslensku tónlistarverðlaununum eða þeim sem að hátíðinni standa. Tónlistarmennirnir hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeirra tíma og peningum sé betur varið í annars konar starfsemi en fram fer á verðlaunahátíðinni. Ávinningur af þátttöku í slíkri verðlaunaafhendingu sé hverfandi og því allt eins gott að beina orkunni í jákvæðari farvegi. 

„Tónlist Kimi Records og tengdra útgefenda og tónlistarmanna fær viðurkenningu á sinni tónlist frá tónlistarunnendum, gagnrýnendum og tónlistarneytendum í formi jákvæðrar umfjöllunar, sölu og almennri velvild í okkar garð. Við teljum okkur ekki þurfa á viðurkenningu stórrar verðlaunahátíðar að halda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert