Kópavogur: gert ráð fyrir hallalausum rekstri

Kópavogur.
Kópavogur. mbl.is/Árni Sæberg

Gert er ráð fyrir hallalausum rekstri Kópavogsbæjar árið 2009, skv. tillögu sem lögð er fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag.

Heildartekjur Kópavogsbæjar á næsta ári eru áætlaðar rúmir 17 milljarðar króna, þar af er áætlað að skatttekjur nemi tæpum 13 milljörðum króna, skv. frétt frá bæjarfélaginu. Þar segir að þannig sé gert ráð fyrir svipuðum heildartekjum og árið 2008 þrátt fyrir fjölgun íbúa í Kópavogi.

Reiknað er með 5% aukningu á launaveltu milli ára, 5% atvinnuleysi og 3% samdrætti í atvinnuþátttöku, en atvinnuþátttaka er hlutfall vinnuafls af heildarmannfjölda.

„Miðað er við að grunnþjónusta verði ekki skert, útsvarstekjur lækki um 0,34% frá tekjum ársins 2008, sorphirðugjald hækki úr 14.000 í 15.300 kr., engum verði sagt upp vegna efnahagsþrenginganna, og þjónustugjöld verði óbreytt nema á mat í leikskólum og grunnskólum vegna mikillar hækkunar á verði aðfanga,“ segir í frétt frá Kópavogsbæ.

Fram kemur að með hliðsjón af sérstökum aðstæðum á fjármálamarkaði sé gert ráð fyrir 10% hækkun á framlögum til félagsþjónustu í Kópavogsbæ á árinu 2009 og 8% hækkun til fræðslumála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert