Össur fær kartöflu frá Stekkjastaur

Össur brosti út að eyrum við Stekkjastaur, kannski finnst honum …
Össur brosti út að eyrum við Stekkjastaur, kannski finnst honum kartöflur bara góðar.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tók í dag við stærðarinnar grillkartöflu frá Stekkjastaur jólasveini, sem kom til byggða síðustu nótt eins og alþjóð veit. Morgunblaðinu barst tilkynning frá manni sem titlar sig umboðsmann jólasveinanna, þar sem fram kemur að Össur fái kartöflu „fyrir að sitja sem fastast sem varaformaður Samfylkingarinnar og sýna hvorki ábyrgð né iðrun fyrir vanrækslu gagnvart þjóð sinni.“

Þá beri Össur auk þess ábyrgð á stóriðjustefnunni við Bakka og í Helguvík. Stekkjastaur var víst alveg miður sín yfir hegðun Össurar þetta árið samkvæmt tilkynningunni, sem segir að fylgst hafi verið með honum náið frá síðustu jólum. „Össur hefur verið óþægur með eindæmum og það sama verður yfir hann að ganga og öll önnur börn þjóðarinnar.“

Giljagaur kemur til byggða í nótt og samkvæmt tilkynningunni frá umboðsmanni jólasveinanna kemur í ljós á morgun hvaða ráðherra honum er í nöp við. Vænta má þess að Giljagaur muni einnig bera með sér nokkrar kartöflur til byggða til þeirra sem þær eiga skilið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert