Aukið samstarf skattsins og Vinnumálastofnunar

Félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra hafa ákveðið að auka verulega samstarf Ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar til þess að sporna gegn svikum á atvinnuleysisbótum og svokallaðri svartri vinnu sem ætla má að fram fari í einhverjum mæli sem stendur.

Aðgerðum stofnananna er ætlað að skapa almennt aðhald á vinnumarkaði, hafa áhrif til varnaðar á fólk og fyrirtæki ásamt því að finna þá sem brotið hafa af sér. Til þess að ná þessum markmiðum verður beitt margvíslegum aðferðum, að því er segir í tilkynningu. 

Meðal annars verður farið í sameiginlegar heimsóknir á vinnustaði þar sem grunur leikur á að verið sé að brjóta lög um atvinnuleysistryggingar eða ástunda skattsvik og leiðir opnaðar til þess að koma ábendingum á framfæri til stofnananna.

Fjármálaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra hafa að auki sammælst um að hugað verði að endurskoðun laga sem stofnanirnar starfa eftir í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af auknu samstarfi. Sérstaklega verði þá hugað að því að einfalda ferla, bæta verklag og styrkja lagaheimildir.

„Ráðherrarnir leggja mikla áherslu á þetta verkefni, enda er með svikum af þessu tagi vegið að sameiginlegu velferðarkerfi landsmanna sem greitt er af skattgreiðendum. Ekki er hægt að líða á samdráttar- og niðurskurðartímum sem þessum að fólk þiggi bætur og sinni launuðum störfum á sama tíma og verður allt kapp lagt á að uppræta slíka háttsemi. Vert er að minna á að misnotkun á bótarétti og undandráttur tekna kann að varða refsingu og sviptingu réttinda," að því er segir í fréttatilkynningu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert