Bílatryggingin var ekki í gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu konu um að viðurkennd verði skaðabótaskylda tryggingarfélags vegna umferðarslyss. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að vátryggingarsamningar um bílinn, sem konan ók, hefðu fallið úr gildi vegna vanskila á iðgjaldi.

Konan lenti í árekstri í mars 2007. Nokkuð tjón varð á bílunum og hlutu ökumenn þeirra beggja nokkra líkamsáverka. Tryggingafélag eiganda bílsins, sem konan ók, hafnaði bótaskyldu og sagði að vátrygging á bílnum hefði verið fallin niður sökum vanskila á iðgjaldi.

Konan sagði að hún og eiginmaður hennar, sem var skráður eigandi bílsins, hefðu ekki fengið í hendur tilkynningu frá tryggingafélaginu um að tryggingin væri fallin úr gildi en þau hjón voru þá ekki búsett á Íslandi. Síðan hafi tryggingafélaginu verið greiddar 30 þúsund krónur haustið áður og því hafi þá borið samkvæmt lögum að líta svo á að óskað verði eftir framlengingu tryggingarinnar.

Dómurinn tók hins vegar undir með tryggingafélaginu að greiðslan hefði ekki verið fullnaðargreiðsla á iðgjaldinu, aðeins innborgun á það sem gjaldfallið var. Því var ekki fallist á að með þeirri greiðslu hafi verið stofnað til nýrrar vátryggingar. Öðrum málsástæðum konunnar var einnig hafnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert