„Alveg skínandi loðna“

Guðmundur VE siglir inn í höfnina í Eyjum.
Guðmundur VE siglir inn í höfnina í Eyjum. mbl.is/Sigurgeir

„Þetta er alveg skínandi loðna,“ sagði Sturla Einarsson skipstjóri á Guðmundi VE. Skipið er nú á loðnumiðunum í bugtinni suður af Þorlákshöfn ásamt fjórum öðrum loðnuskipum sem fylgja fremsta hluta loðnugöngunnar.

„Við tókum einn skammt og erum að frysta,“ sagði Sturla skipstjóri.  „Þetta virðist vera heldur stærri loðna en undanfarin ár. Þetta er bara mjög góð loðna.“ Fyllt er á vinnslutankana og loðnan síðan unnin um borð.

Sturla sagði að hrognafyllingin í loðnunni fremst í göngunni sé að nálgast 20%. Hrognafyllingin þarf að verða 24% svo loðnan sé veidd til hrognatöku. Sturla taldi líklegt að hægt yrði að byrja veiðar á loðnu til hrognatöku í lok vikunnar. 

Loðnuskipin sem fylgja nú fremsta hluta loðnugöngunnar ýmist frysta aflann um borð eða sigla með hann til vinnslu í landi. Sturla sagði að fá skip séu að veiðum hverju sinni.

Þorgeir Baldursson skipaljósmyndari segir á bloggi sínu að fjölveiðskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, sé nú á leið til Norðfjarðar með góðan afla 540-570 tonn af frosinni loðnu. Hrognainnihald loðnunnar er um 19%. Þá er Súlan EA 300 að landa um 600 tonnum á Norðfirði.

Bloggsíða Guðmundar VE

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert