Geir: Yfirlýsingar ekki byggðar á neinu formlegu mati

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde.
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde. mbl.is/Brynjar Gauti

Rannsóknarnefnd Alþings segir ljóst að í ríkisstjórn Íslands var lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir loks sumars 2007 og ágerðist eftir því sem á leið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í 19. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hvorki verði séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum þeirra sem skýrslur gáfu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (viðskiptaráðherra) eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið riðaði til falls í október 2008.

Á tímabilinu hafði þó birst neikvæð umfjöllun um bankana í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, íslenska krónan hafði veikst verulega auk þess sem skuldatryggingarálag bankanna fór hækkandi. Fullt tilefni var því til að ræða málefni bankanna ítarlega í ríkisstjórn.

Reiknaði ekki með því að allir bankarnir myndu falla

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, viðurkenndi við skýrslutöku að yfirlýsingar sínar um stuðning ríkisins við bankakerfið hefðu ekki verið byggðar á neins konar formlegu mati.

Síðan bætti hann við: „En auðvitað reiknaði ekki nokkur maður með því að það mundi reyna á það gagnvart öllum þremur bönkunum, en ég held að svona óformlegt mat manna hafi verið að menn mundu ráða við einn, allavegana einn og kannski tvo.“

Aðspurður hvaða fjárhæðir menn hefðu miðað við í þeim efnum svaraði Geir: „Það náttúrulega veit maður ekki, það sem gerðist með Glitni var náttúrulega það að það var reynt að bjarga honum. [...] Nei, ég get ekki nefnt fjárhæðirnar, það er ekki nokkur leið, en maður veit aldrei hvað svona áfall er stórt [...].“

Engir útreikningar lágu fyrir

Við skýrslutöku var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, spurð að því hvort einhverjir útreikningar hefðu legið fyrir um það hvaða fjármuni þyrfti til þess að standa við bakið á bönkunum þegar hún og aðrir ráðherrar gáfu yfirlýsingar um að það yrði gert.

Svar hennar var: „Nei. Það lá ekkert slíkt fyrir. Það sem umræðan var um á þessum tíma var að það væri mikilvægt að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og það var náttúrulega líka talað um að það væri mikilvægt bara að senda þessi skilaboð út, það var aftur þetta, svona að reyna að reka þessar hýenur frá, og að ef eitthvað annað yrði sagt þá væri það í sjálfu sér mjög hættulegt fyrir íslenska bankakerfið.

Ef það væri einhvern veginn látið í veðri vaka að íslensk stjórnvöld stæðu ekki á bak við bankakerfið, eða treystu sér ekki til þess, þá væri það í sjálfu sér mjög hættulegt, það væri mikilvægt að segja það skýrt að við mundum auka gjaldeyrisvaraforðann til þess að auka þessar varnir innanlands, styrkja þessar varnir innanlands.

En það lá engin greining fyrir á því og það verður bara að segja það eins og er að eitthvert hættumat varðandi bankana það hafði mér vitanlega aldrei verið unnið, eða ég hafði aldrei séð það. Það var reyndar eitt af því sem ég ákvað fljótlega eftir að ég varð utanríkisráðherra að láta vinna hættumat fyrir Ísland og útfæra þá hættumatshugtakið, að það næði ekki bara til þessara hefðbundnu varna heldur ekki síður til varna á sviði tölvumála, fjármálakerfa o.s.frv. Sú hættumatsskýrsla kom reyndar ekki út fyrr en í byrjun [2009] en slíkt hættumat sá ég aldrei hvað varðaði fjármálakerfið.“

Lítið hægt að gera

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, var við skýrslutöku spurður að því hvort yfirlýsingar ráðamanna um stuðning við bankakerfið hefðu stuðst við útreikninga eða könnun fjármálaráðuneytisins á því álitaefni.

Árni svaraði: „Ég held að það hafi ekki verið gert í þessu samhengi. Orðalagið sem við notuðum bæði ég og forsætisráðherrann, þá Geir, var það að Ísland mundi gera það sem aðrar ábyrgar, vestrænar þjóðir mundu gera undir svona kringumstæðum.“

Árni bætti síðan við að í janúar 2008 hefði lítið verið hægt að gera: „Ég held að við séum á þeim punkti komin langt fram yfir þann tímapunkt að við hefðum getað gert eitthvað til að breyta raunverulega því sem að gerðist. Það er þá í árum talið, ef við hefðum átt að gera eitthvað í þessu, þá hefðum við þurft að gera það 2005, 2006.“

Í drögum að fundargerð frá 25. fundi samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað 12. ágúst 2008 segir að Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, hafi minnt á að fyrir liggi yfirlýsingar forsætis- og fjármálaráðherra í þá veru að stjórnvöld standi við bakið á stóru bönkunum.

Fram kemur að Tryggvi Pálsson hafi þá spurt hvort ríkissjóður geti staðið við slíkar yfirlýsingar án þess að hætta á eigið greiðsluþrot. Haft er eftir Ingimundi Friðrikssyni að undirliggjandi vandi geti staðið lengi. Í drögum að fundargerð er ekki að sjá að nokkur niðurstaða hafi verið færð til bókar úr þessari umræðu og ekki virðist samráðshópurinn hafa talið ástæðu til þess að gefa ráðherrunum til kynna hvaða kostnaður kynni að falla á ríkið ef efna ætti yfirlýsingar ráðherra, að því er segir í nítjánda kafla skýrslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert