Nýtt fólk á skattalistanum

Guðbjörg Matthíasdóttir útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, sem greiðir hæstu skattana í ár, greiðir mun hærri skatta en sá sem var skattakóngur í fyrra. Miklar breytingar hafa orðið á lista yfir þá sem greiða hæstu skattana. Guðbjörgu var ekki að finna á lista yfir hæstu gjaldendur í fyrra.

Guðbjörg greiðir tæplega 343 milljónir í skatta, en í fyrra var Þorsteinn Már Baldvinsson útgerðarmaður á Akureyri, hæstur með tæplega 170 milljónir. Árið þar á undan var Hreiðar Már Sigurðarson, forstjóri Kaupþings, skattakóngur með um 400 milljónir í skatta.

Í fyrra voru Hreiðar Már og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, með hæstu gjöldin í Reykjavík, en þá er ekki að finna á lista ríkisskattstjóra yfir þá sem greiða hæstu gjöldin í ár.

Svokallaða útrásarvíkinga er þó enn að finna á listanum yfir skatthæstu gjaldendur. Þar eru t.d. Lárus Welding og Bjarni Ármannsson, sem báðir stýrðu Glitni um tíma. Jón Sigurðsson, sem til skamms tíma var forstjóri FL-Group, er einnig á listanum. 

Fleiri, sem voru áberandi í fjármálalífinu, eru þar einnig, meðal annars er Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, í 5. sæti.  Þá er Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, í 63. sæti listans en hann greiðir rúmar 30 milljónir í opinber gjöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert