„Undarleg uppákoma“

Nýverið afhenti Sveinn Rúnar Hauksson fyrsta framlagið í Maríusjóð Aisha, …
Nýverið afhenti Sveinn Rúnar Hauksson fyrsta framlagið í Maríusjóð Aisha, félags til verndar konum og börnum á Gazasvæðinu.

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og formaður félagsins Ísland Palestína, er strandaglópur í Egyptalandi. Hann hefur ekki fengið nein svör frá egypskum stjórnvöldum um það hvers vegna honum hefur verið meinað að snúa aftur til Gaza þar sem hann hefur verið að störfum. „Þetta er undarleg uppákoma.“

Sveinn gistir nú á hóteli í hafnarborginni El Arish og bíður eftir svörum frá íslenska utanríkisráðuneytinu, sem hyggst setja sig í samband við egypsk yfirvöld vegna málsins.

Hann fór yfir landamærin í gær til að fylgja írskum vinum sínum, sem voru á leiðinni til Kaíró. „Ég fæ þær upplýsingar að ég geti farið til baka hvenær sem er. Ætlaði raunar að fara til baka um kvöldið,“ segir hann í samtali við mbl.is og  bætir við að um tiltölulega stuttar vegalengdir sé að ræða.

En þegar hann hugðist snúa aftur til baka var honum neitað. „Þegar ég ætla að fara til baka þá er bara lok, lok og læs og allt í stáli.“ Engar skýringar hafi verið gefnar. 

„Ég er nánast auralaus, hafði ekkert gert ráð fyrir þessu. Var ekki með kortin mín með mér og varð að líka að útvega mér þau lyf sem ég nota [...] En þetta hefur allt saman gengið,“ segir hann.

„Mín staða er mjög óviss. Ég veit ekki hvort það þýði að reyna þarna. Þetta er í höndum leyniþjónustunnar [í Egyptalandi] og hún hefur sitt vald. Ég veit að utanríkisráðuneytið hefur hafist handa, en það verður samt ekki fyrr en á morgun sem sendiherrann í Noregi mun ná tali af sendiherra Egyptalands í Noregi. Og það verður farið þessa diplómatísku leið að reyna þrýsta á einhverja lausn,“ segir Sveinn.

Gangi það ekki muni hann reyna að komast aftur til Gaza í gegnum Ísrael.

Hann hafi í nógu að snúast í sínum hjálparstörfum á svæðinu. M.a. eigi hann von á stoðtækjasmiðnum Óskari Lárussyni, sem var nýverið á Gaza ásamt tveimur öðrum smiðum á vegum stoðtækjafyrirtækisins Össurar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert