Lagði fram 12 tillögur og tvö frumvörp

Árni Johnsen á Alþingi.
Árni Johnsen á Alþingi. mbl.is/Ómar

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lagði í dag fram 12 þingsályktunartillögur og tvö lagafrumvarp á Alþingi um ýmis mál. Jafnframt var tilkynnt í dag að Árni yrði í veikindaleyfi frá þingstörfum í tvær vikur.

Meðal tillagna Árna er að gerð verði úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs, að komið verði á íslenskri handverksdeild í Listaháskóla Íslands, að hlutur ljóðakennslu og skólasöngs verði aukinn í námskrá grunn- og framhaldsskóla og aukin verði fræðsla í skólum um skaðsemi áfengis, að gert verði kleift að halda guðsþjónustur allar helgar ársins í Þingvallakirkju, gerð verði úttekt á áhrifum Schengen-samtarfsins á íslenskt þjóðfélag, að komið verði á fót fuglaskoðunarstöð í Garði og skipasafni í Reykjanesbæ og hafinn verði undirbúningur því að taka upp millidómsstig. 

Fleiri þingmenn standa að flestum tillögunum en Árni er fyrsti flutningsmaður þeirra. Hann er einnig fyrsti  flutningsmaður frumvarps, sem felur í sér að hætt verði við að afnema svonefndan sjómannaafslátt í tekjuskattkerfinu eins og stjórnvöld stefna að. Meðflutningsmenn eru úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og einn stjórnarþingmaður, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Samfylkingunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert