Gróf sig í fönn og beið

Peter Bollmann, annar frá vinstri, ásamt félögum sínum tveimur og …
Peter Bollmann, annar frá vinstri, ásamt félögum sínum tveimur og Svani Lárussyni björgunarsveitarmanni. mbl.is/Óli Már

Peter Bollmann og félagar hans tveir áttu aldrei von á því að veðrið á Eyjafjallajökli gæti breyst eins hratt og raunin varð. Þeir félagar eru alvanir fjallamenn sem hafa gengið víða í Ölpunum og í Lapplandi meðal annars og voru því við öllu búnir, nema hinum snöggu veðraskiptum. Þakka má fyrir að Peter brást hárrétt við aðstæðum, enda jökullinn alsettur djúpum sprungum eftir eldgosið og hættulegur yfirferðar.

„Ég vissi hvað ég yrði að gera: Vera kyrr og bíða," segir Peter. „Ég gróf mig í fönn og beið eftir næsta morgni í von um að aðstæður myndu skána. Daginn eftir var veðrið hinsvegar óbreytt svo ég neyddist til að vera um kyrrt aðra nótt." Hann játar að það hafi verið erfitt að sjá fram á að dvelja aðra nótt á jöklinum, en leyfði sér þó aldrei að örvænta. Peter kann hinum íslensku björgunarsveitum miklar þakkir fyrir frábært starf.

Peter og félagar hans ætluðu sér að ganga á fleiri fjöll í þessari fyrstu Íslandsför sinni og höfðu meðal annars augastað á Vatnajökli. Þeir ætla hinsvegar að ráðfæra sig við björgunarsveitir og Veðurstofuna áður en þeir taka ákvörðun um þá för, en Peter segist hafa ástríðu fyrir fjallamennsku sem verði ekki kæfð svo auðveldlega. „Á næsta ári er planið að fara til Alaska með vinum mínum og klífa fjöll þar.“

Nánar er rætt við Peter Bollmann um lífsreynslu hans á Eyjafjallajökli í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert