Kennarar ósáttir við Halldór

Grunnskólakennarar eru ósáttir við Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Grunnskólakennarar eru ósáttir við Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Grunnskólakennarar eru ósáttir við það sem þeir kalla inngrip Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjaraviðræður. Segja þeir orðum Halldórs ætlað að skapa andúð almennings á störfum kennara og reyna þannig að réttlæta áframhaldandi niðurskurð sveitarfélaga í skólamálum. 

Í yfirlýsingu frá Félagi grunnskólakennara (FG) segir að Halldór hafi undanfarnar vikur komið fram í fjölmiðlum og tjáð sig efnislega um ýmis atriði er lúta að kjarasamningi Félags grunnskólakennara og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga en kjaraviðræður hafa staðið yfir undanfarið.

Það sé með öllu óþolandi og óviðeigandi að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga skuli  blanda sér inn í kjaraviðræðurnar á þann hátt. 

„Ekki verður annað séð en að inngrip formanns Sambands sveitarfélaga sé eingöngu ætlað að skapa andúð almennings á störfum kennara. Með því er verið að reyna að réttlæta áframhaldandi niðurskurð sveitarfélaga í skólamálum,“ segir í yfirlýsingunni.

Óskar FG eftir því að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga láti samninganefnd sína eina annast viðræður við félagið og láti af árásum á kennara og störf þeirra. Ljóst sé að kennarar hafi á undanförnum árum unnið þrekvirki  við að halda skólastarfi í landinu gangandi þrátt fyrir mikið viðvarandi álag og verulegan niðurskurð í rekstri  grunnskólanna.

„Samninganefnd FG mun ekki elta ólar við fullyrðingar formannsins á síðustu dögum enda eru kjaraviðræður í gangi milli aðila. Á þeim vettvangi fer fram efnisleg umræða, en ekki á síðum blaða, í bloggskrifum eða í ljósvakamiðlum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert