Álfheiður baðst afsökunar

Álfheiður Ingadóttir alþingismaður.
Álfheiður Ingadóttir alþingismaður.

Álfheiður Ingadóttir alþingismaður bað í dag sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi afsökunar á ummæli sem hún lét falla í umræðum á Alþingi fyrir skömmu um afgreiðslu á aðalskipulagi hreppsins. Ummælin hefðu átt við sveitarstjórnarmenn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en ekki Flóahreppi.

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur farið formlega þess á leit við forseta Alþingis að hann beiti sér fyrir því að þeir alþingismenn sem hafa sakað sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi um að þiggja mútur, biðjist afsökunar og dragi þessi ummæli til baka. Verði það ekki gert er því beint til forseta að áminna viðkomandi þingmenn fyrir ummæli sín. Forseti Alþingis sendi í dag svar til sveitarstjórnar Flóahrepps.

Álfheiður sagði á Alþingi í dag að hún dragi til baka ummæli sem hún beindi að „Flóamönnum“. Hún sagðist hafa beint ummælunum að rangri sveitarstjórn. Hún hefði ætlað að beina orðum sínum til sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahrepp sem hefðu tekið við 250 þúsund króna greiðslu frá Landsvirkjun vegna funda sem ekki hefðu verið skráðir.

Mörður Árnason alþingismaður sagði í umræðunni að ummæli sem hann hefði látið falla um þetta mál hefðu ekki fallið í þingsal heldur í Silfri Egils og á bloggsíðu sinni. Það væri því ekki tilefni til að blanda forseta Alþingis í málið þó hann skiptist á skoðunum við sveitarstjórnarmenn á Suðurland um skipulagsmál.

Mörður sagði m.a. í Silfri Egils, að að greiðsla Landsvirkjunar fyrir gerð aðalskipulags Flóahrepps og ýmislegt annað í sveitarfélaginu í tengslum við að koma Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag hafi verið mútur.

Vilja að þingmenn biðjist afsökunar

Segi mútur og skrifa mútur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert