Áhrif brennisteinsvetnis vanmetin

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/RAX

Heilbrigðisyfirvöld í Reykjavík gagnrýna harðlega frummatsskýrslu Orkuveitunnar vegna jarðhitavinnslu á Hellisheiði.

„Ég harma þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í svona veigamiklu máli," segir Kristín Soffía Jónsdóttir formaður Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, í tilkynningu.

Kristín segir að neikvæð áhrif á umhverfi borgarbúa ber að taka mjög alvarlega. „Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ber að tryggja öruggt og heilnæmt umhverfi og það ætlar nefndin að gera."

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fékk frummatsskýrslu um nýtingu jarðhita við Gráuhnúka fyrir Hellisheiðarvirkjun til umsagnar og hefur komið athugasemdum sínum á framfæri. Þar kemur meðal annars fram að eftirlitið telur að áhrif vegna losunar brennisteinsvetnis (H2S) á loftgæði í Reykjavík séu vanmetin. Ekki sé heldur tekið tillit til veðurfarsþátta sem geri að verkum að mengun berist til borgarinnar.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur tekur undir athugasemdirnar um að mengunaráhrifin séu í engu metin. Í bókun nefndarinnar um málið segir að  raunveruleg aukning á brennisteinsvetni geti orðið í kringum 40%. Heilbrigðisnefndin telur mikilvægt að fyrirhugaðar framkvæmdir við  Gráuhnúka verði teknar til rækilegrar endurskoðunar með tilliti til aukningar á brennisteinsvetni frá nýjum borholum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert