Vilja ræða stöðu leigjenda

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í félags- og tryggingamálanefnd Alþingis hafa sent formanni nefndarinnar, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, bréf með ósk um að nefndin fjalli á næsta fundi sínum, 16. ágúst n.k., um stöðu þeirra heimila, sem eru leigutakar.

Vilja þeir fá upplýsingar sem fyrir liggja um stöðu þessara heimila, og hvaða stuðnings þau njóta af hálfu ríkisvaldsins og sveitarfélaga og hvort ástæða er til að breyta þeim stuðningi til samræmis við stuðning við aðrar fjölskyldur og hvernig unnt yrði að standa að þeim breytingum.
 
Rætt verði við sérfræðinga sem þekkja stöðu þessara heimila. T.d. frá sveitarfélögum, fagráðuneytum, Hagstofunni, háskólum og hagsmunasamtökum.
 
Einnig verði upplýst um stöðu tveggja frumvarpa, sem ætlað var að kanna stöðu allra heimila og liggja fyrir efnahags- og skattanefnd frá því í nóvember sl.
 
Þessi beiðni er sett fram þar sem fréttir berast af því að staða þessara heimila sé bágborin og fari versnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert