Borgarfulltrúar greiða minna fyrir mat en fatlaðir

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þau rök meirihlutans í Reykjavíkurborg að verið sé að koma jafnt fram við fatlað fólk og ófatlað með því að rukka fyrir máltíðir á vinnustöðum þroskahamlaðra standast illa. Þetta segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, á bloggsíðu sinni. Bendir hún á að fatlaðir greiði meira en borgarfulltrúar fyrir máltíðir.

Sóley vísar í orð Bjarkar Vilhelmsdóttur, formanns velferðarráðs, við DV þar sem hún réttlætir þessa nýja gjaldtöku með því að hún sé í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að allir séu meðhöndlaðir eins. Fatlaðir eigi þannig að greiða það sama fyrir máltíðir og aðrir.

„Þessi röksemdafærsla stenst illa. Fyrir utan þá staðreynd að launakjör fatlaðs fólks hjá borginni eru ekki sambærileg við launakjör ófatlaðs fólks – og þannig alls ekki allir meðhöndlaðir eins, þá eru gjaldskrár vegna máltíða á vegum borgarinnar afar ólíkar eftir því hverjir eiga í hlut,“ skrifar Sóley.

Fötluðum sé gert að greiða 610 krónur fyrir hverja máltíð en í Ráðhúsi Reykjavíkur greiði borgarfulltrúar og embættismenn 400 krónur fyrir hverja máltíð. Samkvæmt gjaldskrá velferðarsviðs séu máltíðir í félagsmiðstöðvum fyrir aldraða svo seldar á 550 krónur.

Pistill Sóleyjar Tómasdóttur á bloggsíðu hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert