Stóð aldrei til að ég yrði lengi

Sigurður Þ. Ragnarsson á kynningarfundi Samstöðu í Iðnó í byrjun …
Sigurður Þ. Ragnarsson á kynningarfundi Samstöðu í Iðnó í byrjun febrúar. Ómar Óskarsson

„Það stóð nú aldrei til að ég yrði lengi að vinna með Samstöðu. Ég lofaði Lilju [Mósesdóttur] að koma að þessu á sínum tíma til að hjálpa þeim við að koma framboðinu á laggirnar. Þannig að nú er því verki lokið, þetta er farið að rúlla og ég ákvað að draga mig frá þessu.“

Þetta segir Sigurður Þ. Ragnarsson sem hefur ákveðið að segja skilið við Samstöðu, flokk lýðræðis og velferðar, líkt og fram kemur í fréttatilkynningu frá Lilju Mósesdóttur í morgun. Sigurður var annar tveggja varaformanna flokksins.

Sigurður segist aldrei hafa ætlað í framboð. „Það stóð aldrei til að ég færi í framboð eða neitt svoleiðis,“ segir Sigurður og bætir við að hann hafi ítrekað verið spurður um það á undanförnum dögum en ávallt hafnað því.

Spurður hvort einhver ágreiningur sé milli hans og annarra í Samstöðu segist Sigurður ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu.

Hann segist áfram styðja Samstöðu sem hann segir að sé eitt þeirra framboða sem hann telji að eigi eftir að gera góða hluti.

Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar, var stofnaður í byrjun febrúar og kynnti málefnaskrá sína á blaðamannafundi í Iðnó 7. febrúar síðastliðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert