Nýttu ekki tækifæri til að breikka forystuna

Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir. mbl.is

 „Auðvitað eru það vonbrigði að flokksráðsmenn skyldu ekki nýta þetta tækifæri til að breikka forystuna og veita aðila utan þingflokksins brautargengi,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, sem var í kjöri til 2. varaformanns Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi um helgina í samtali við fréttavefinn DFS.  „En það var greinilega ekki stemning fyrir slíku og því fór sem fór. Greinilega var minnst eftirspurn eftir konu úr sveitarstjórnargeiranum og kannski spilaði þar inn í að þegar er ein glæsileg kona í forystusveitinni. Tvær konur í forystusveitina var kannski of mikil breyting fyrir marga. 

En fyrir mig var þetta skemmtileg reynsla og gaman að taka þátt í þessum slag. Ég er stolt af mínu fólki sem vann vel í aðdraganda fundarins. Við Hvergerðingar megum vera ánægð með okkar hlut innan Sjálfstæðisflokksins þó að ég hafi ekki náð því markmiði sem ég ætlaði mér í þessum kosningum. Ég er formaður sveitarstjórnarráðs og á sem slík sæti í miðstjórn. Einnig var ég nýlega tilnefnd sem annar af tveimur tengiliðum flokksins við Evrópusamtök íhaldsflokka sem er skemmtilegt og fróðlegt verkefni.  Eyþór H. Ólafsson situr einnig í  miðstjórn og Unnur Þormóðsdóttir var á flokksráðsfundinum kosin í stjórn velferðarnefndar. Friðrik Sigurbjörnsson er formaður kjördæmisráðs ungra sjálfstæðismanna og því er það morgunljóst að við munum áfram vinna af heilindum og krafti að því uppbyggingarstarfi sem nauðsynlegt er til að flokkurinn nái fyrri styrk,“ sagði Aldís við DFS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert