Evruvandinn ennþá óleystur

David Campbell Bennerman, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, við dyr …
David Campbell Bennerman, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, við dyr Þjóðmenningarhússins í dag. mbl.is/Hjörtur

„Ég tel persónulega að Bretland ætti að yfirgefa Evrópusambandið og eigi eftir að gera það. Það lítur kannski ekki út fyrir það í augnablikinu en ég tel að það sé besta niðurstaðan fyrir bresku þjóðina,“ segir David Campbell Bannerman, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, í samtali við mbl.is en hann er staddur hér á landi vegna fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins vegna umsóknar íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið.

Campbell Bannerman segist sjálfur hlynntur vinsamlegum samskiptum og viðskiptum við sambandið en vilji hins vegar ekki að Bretland verði hluti af pólitísku stórríki. „Það kom til að mynda fram skýrsla í Evrópuþinginu í síðustu viku sem ég tók þátt í umræðum um þar sem kallað var eftir sameiginlegu skattkerfi, sameiginlegu velferðarkerfi og bótakerfi, sameiginlegu lífeyrissjóðakerfi og jafnvel sameiginlegum lögum um hjónaskilnaði fyrir allt Evrópusambandið. Þetta var samþykkt af þinginu þótt sjálfur hafi ég greitt atkvæði gegn því eins og aðrir í þingflokknum mínum.“

Hann segir ljóst að þegar málin séu komin á þetta stig sé ekki lengur um viðskiptabandalag að ræða eins og breska þjóðin hafi talið sig vera að ganga í á sínum tíma. „Þetta snýst um stjórnmálalegt bandalag og breska þjóðin hefur aldrei veitt samþykki sitt fyrir því. Ég tel að breska þjóðin þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu um veruna í Evrópusambandinu til þess að ákveða hvort hún vilji vera áfram í þessu stjórnmálalega bandalagi eða yfirgefa það og eiga einungis í vinsamlegum viðskiptum við sambandið í gegnum fríverslunarsamninga.“

Aðspurður hvort hann telji að Bretar eigi á einhverjum tímapunkti í framtíðinni eftir að taka evruna upp sem gjaldmiðil sinn í stað breska pundsins segist Campbell Bannerman ekki sjá það fyrir sér. Engin umræða sé í raun um það í Bretlandi lengur og það sé í raun ekki stefnan hjá neinum af þremur stærstu stjórnmálaflokkum landsins. Þar hafi erfiðleikarnir á evrusvæðinu sín áhrif sem hann segir að því miður sjái ekki fyrir endann á.

Telur að evrusvæðið liðist í sundur

„Mín persónulega skoðun er að sú að evrusvæðið eigi eftir að liðast í sundur,“ segir Campbell Bannerman aðspurður um stöðu mála á evrusvæðinu og hvort hann telji að Evrópusambandið sé að ná tökum á efnahagsvandanum innan þess. Hann segir að það beri þó ekki mikið á þeirri þróun vegna þess að verið sé að prenta gríðarlegt magn af evrum til þess meðal annars að kaupa skuldabréf evruríkja í vanda sem séu í ruslflokki. „Ég hef miklar áhyggjur af því vegna þess að það leiðir á endanum til ónýts gjaldmiðils,“ segir hann. Hann segir peningaprentun Evrópska seðlabankans róa markaðina tímabundið vegna þess að það tryggi bönkunum fjármagn en undirliggjandi vandi evrusvæðisins sé eftir sem áður óleystur.

„Það þarf í raun ekki annað en að ein skuldabréfaútgáfa fari forgörðum eða lánstraust eins af stærri hagkerfunum. Spánn og Ítalía koma til greina í því sambandi, sérstaklega Spánn. Portúgal er sennilega næst í röðinni. Írland er í skárri stöðu en er eftir sem áður að glíma við mikla erfiðleika. Jafnvel Bretland og Frakkland eru í erfiðleikum, ég er ekki að segja að þetta sé bundið við evrusvæðið,“ segir Campbell Bannerman aðspurður áfram um stöðuna á evrusvæðinu. Hann segir að ef eitthvað slíkt gerist gæti það leitt til stórs greiðsluþrots þar sem nauðsynlegir fjármunir til þess að takast á við það verða ekki til staðar.

„Ef það gerist verða greiðsluþrot og lækkanir á gjaldmiðlum, ríki munu yfirgefa evrusvæðið og ég held að markaðirnir muni sjá um afganginn. Ég tel að mesta hættan sem ógnar evrunni sé að markaðirnir glati trausti sínu á stjórnmálunum. Að það sé einhver pólitísk lausn möguleg,“ segir Campbell Bannerman. Gríðarleg hætta fylgi því að prenta stöðugt fleiri evrur. Það kunni á endanum að leiða til svipaðs ástands og í þýska Weimar-lýðveldinu þar sem fólk hafi að lokum keyrt peninga í hjólbörum til þess að kaupa sér nauðsynjar. „Það fylgir því gríðarleg áhætta að reyna að renna stoðum undir evruna með þessum hætti.“

Mjög lítið samningssvigrúm

Spurður að því að lokum hvort hann telji raunhæft að Ísland geti gengið í Evrópusambandið og haldið yfirráðum sínum yfir eigin sjávarútvegsmálum segist Campbell Bannerman enga trú hafa á því. „Jafnvel sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins [Maria Damanaki], sem ég ræddi við fyrir nokkrum vikum og er sjálf sveigjanleg og reynir að gera sitt besta, viðurkennir að það sé mjög lítið svigrúm innan sáttmálanna til þess að koma til móts við kröfur Íslendinga,“ segir hann og bætir því við að ef Íslendingar fengju einhverjar umtalsverðar ívilnanir varðandi sjávarútveg sinn myndu fleiri ríki innan Evrópusambandsins óska eftir því sama og þar á meðal Bretland sem aftur hefði í för með sér að sameiginlega sjávarútvegsstefnan myndi ekki virka lengur.

„Ég tel persónulega að ef núverandi sjávarútvegsstefna sambandsins yrði tekin upp á Íslandi yrðu afleiðingar þess hrikalegar fyrir efnahags landsins og tel að það yrði ekki í þágu hagsmuna íslensku þjóðarinnar til lengri tíma litið,“ segir Campbell Bannerman ennfremur og segir stefnuna hafa kostað Breta allt að 100 þúsund störf, bæði í sjávarútveginum sjálfum og afleidd störf. „Stefnan hefur haft hrikalegar afleiðingar í för með sér fyrir breskan sjávarútveg og efnahagslíf. Það er auðvitað algerlega undir íslensku þjóðinni komið hvað hún gerir, þetta er hennar ákvörðun. En ég tel að fólk þurfi að skoða þessi mál mjög náið í ljósi þess hversu mikilvægur sjávarútvegur er fyrir Ísland.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert