Blautur þjóðhátíðardagur

Það stefnir í vætusaman þjóðhátíðardag um allt land.
Það stefnir í vætusaman þjóðhátíðardag um allt land. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir að þjóðhátíðardagurinn 17. júní verði vætusamur um allt land, sérstaklega sunnan- og vestantil. Þá verður þurrast á Norðausturlandi á sunnudaginn og lítur út fyrir að þar verði örlítil væta um morguninn en haldist þurrt eftir hádegi. Rigning verður í öðrum landshlutum.

„Það verður svalt í veðri á öllu landinu en sennilega best á Norðausturlandi,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Á morgun og laugardag verður veður heldur betra en það munu skiptast á skin og skúrir á öllu landinu. Líkur eru síðan á hlýnandi veðri eftir helgi og um miðja næstu viku mun hlýna á öllu landinu og ekki síst á Austurlandi þar sem veður hefur verið kalt að undanförnu.

Spá Veðurstofu Íslands næstu daga

Á laugardag er spáð norðaustlægri eða breytilegri átt, 3-8 m/s. Skýjað með köflum og þurrt að kalla á Vestur- og Norðvesturlandi, en annars staðar skúrir, einkum síðdegis. Hiti 4 til 15 stig, svalast með austurströndinni, en hlýjast á Suðvesturlandi.

Á sunnudaginn 17. júní er spáð austlægri átt, 3-10 m/s, hvassast við suðurströndina og á annesjum norðantil. Rigning eða skúrir sunnanlands en dregur úr úrkomu eftir hádegi. Annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 8 til 14 stig en svalara austanlands.

Á mánudag er spáð hægri breytilegri átt og stöku síðdegisskúr. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag er spáð suðvestlægri átt, skýjað en úrkomulítið. Bjart suðaustanlands. Hiti 7 til 15 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert