Til þessa hafa tvær leiðir verið í boði við val á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, annaðhvort prófkjör eða uppstilling, en á síðasta landsfundi var bætt við þriðju leiðinni að sögn Jónmundar Guðmarssonar, framkvæmdastjóra flokksins.
Þriðja leiðin felur í sér að mögulegt sé að velja lista á fulltrúaráðsfundi og almenn kosing fari þar með fram á meðal þeirra sem þar eiga sæti. Hann segir að reglur varðandi þá leið hafi hins vegar ekki verið útfærðar nánar en starfshópur sé að störfum í þeim efnum.
„Það næsta sem gerist í þessu er að kjördæmisráð hvers kjördæmis koma saman, sem ég reikna með að verði fljótlega eftir mánaðamótin víðast hvar, þar sem tekið verður til umræðu og ákvörðunar með hvaða hætti valið verði á lista í viðkomandi kjördæmum,“ segir Jónmundur.
Spurður um næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins segir Jónmundur að væntanlega verði hann á næsta ári í aðdraganda fyrirhugaðra þingkosninga í vor. Ekki hefur hins vegar verið ákveðið hvenær hann verður haldinn en miðstjórn flokksins tekur þá ákvörðun.