Vill kanna hvort umsóknin nýtur stuðnings

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held að það sé mikilvægt að við tökum alvarlega umræðu í þingsal um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og athugum hvort meirihluti er fyrir því í þinginu að halda henni áfram eða ekki,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í gær.

Vakti hann máls á því að fyrirhugað bankabandalag Evrópusambandsins væri í uppnámi samkvæmt fréttum sem yki enn á vandræðaganginn og óvissuna innan sambandsins. „Á meðan haga stjórnvöld á Íslandi sér eins og ekkert hafi í skorist. Enn er haldið áfram á þeirri vonlausu vegferð að semja við Evrópusambandið.“

Þá vísaði Gunnar Bragi til þess að samkvæmt fréttum yrði Íslendingar að taka upp alla löggjöf Evrópusambandsins ætluðu þeir að ganga í það og vísaði þar til fréttatilkynningar ráðherraráðs sambandsins vegna stöðunnar í umsóknarferli Íslands.

„Hvað með allar undanþágurnar eða þá skapandi hugsun sem er búið að ræða í þessum ræðustól af hæstvirtum utanríkisráðherra svo einhver sé nefndur hér? Er hægt að beita skapandi hugsun við að breyta lagabálki Evrópusambandsins þegar fyrir liggur að það er ekki í boði? Hvað í ósköpunum eru menn að tala um?“ spurði hann.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnaði því að Gunnar Bragi skyldi vekja máls á stöðu umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið. Vitnaði hann í David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem hefði sagt að ef Bretar yfirgæfu sambandið yrði þeir í sömu stöðu og Norðmenn.

Sagði Magnús Orri ennfremur að andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið vildu taka af íslensku þjóðinni réttinn til þess að kjósa um það hvort ganga ætti í sambandið. Gunnar Bragi sagði á móti að þjóðinni hefði ekki verið verið leyft að kjósa um það hvort sækja hefði átt um inngöngu.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert