Síldardauði gæti verið vegna þverunar

Úr fjöru við Kolgrafarfjörð.
Úr fjöru við Kolgrafarfjörð. Ljósmynd/Róbert Arnar Stefánsson

Súrefni eyðist hratt í sjó í innilokuðum fjörðum vegna starfsemi lífríkisins og niðurbrots á fóðurleifum og saur. Kolgrafarfjörður var þveraður af Vegagerðinni árið 2004 og síðan hefur dregið úr magni nýsjávar innan brúar. Þetta gæti verið ein af skýringunum á síldardauðanum í Kolgrafarfirði að mati Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings.

Í bloggi sínu skrifar Haraldur að endurnýjunartími fyrir sjó í innilokuðum fjörðum geti því verið langur.  Á meðan hrapar súrefnisinnihald vatnsins. 

„Það virðist vera nú nær árlegur atburður, að síld veður inn á grunnsævi á sunnanverðum Breiðafirði.  Þessar göngur eru einkum áberandi í grennd við Grundarfjörð og Kolgrafarfjörð, en einnig inn á Hofstaðavog.  Nú liggur síldin dauð í hrönnum á fjörum Kolgrafarfjarðar.  Hvað veldur þessari hegðun síldarinnar?“ spyr Haraldur.

„Sumir telja að síldin leiti inn á grunna firði snemma vetrar til að komast í kaldari sjó, til vetursetu. Þá dregur úr fæðunámi síldarinnar og öll líkamsstarfsemi hennar hægir á sér. Hún leggst í dvala.  En hvers vegna er síldin að drepast?  Það virðist nær örugglega vera vegna súrefnisskorts, eins og fiskifræðingar hafa bent á.  Sjór sem er mettaður af súrefni inniheldur um 10 mg af súrefni í hverjum lítra.“

Sum hafssvæði eru nær súrefnissnauð

Haraldur bendir á að sum hafsvæði séu nær súrefnissnauð, til dæmis Eystrasalt, Mexíkóflóa og Svartahaf.  „Dauði blasir við fyrir flestar fisktegundir. Ástæðan er sú, að straumur af söltum sjó frá Norðursjó inn í Eystrasalt er mjög lítill. Önnur ástæða er að úrgangur og mengun frá um 80 milljón íbúum umhverfis Eystrasalt hefur borið inn efni, sem hafa gleypt upp nær allt súrefni hafsins. Allt fram til ársins 1950 var Eystrasalt við góða heilsu. En nú horfir illa og hugmyndir hafa komið fram um betrumbætur.  Nú er til dæmis í athugun að nota eitt hundrað fljótandi vindmyllur til að dæla súrefni niður í djúpið til að lífga aftur Eystrasaltið.“

Meiri hiti, minni fiskar

Haraldur skrifar að sumir vísindamenn hafi bent á, að með hækkandi hita vegna hnattrænnar hlýnunar og minnkandi súrefni í hafinu, muni stærð fiska minnka og afli okkar úr heimshöfunum dragast saman af þessum sökum um fjórðung næstu áratugina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert