„Sigur fólksins á ofríki ríkisstjórnar“

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er gott að fá staðfestingu á að við brutum engar alþjóðlegar skuldbindingar,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag, en nú fara þar fram umræður um dóm EFTA-dómstólsins um Icesave. 

Bjarni rifjaði upp málavöxtu og sagði Íslendinga lítinn hljómgrunn hafa átt í alþjóðasamfélaginu, hvorki hjá ESB né hjá hinum Norðurlöndunum. Það sama gilti um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. „Að þessu leytinu stóðum við ein, en smám saman rann upp ljós fyrir þeim sem stóðu utan hins pólitíska hráskinnaleiks,“ sagði Bjarni.

Hefðum við fengið sjálfdæmi um að setja neyðarlög?

Hann velti upp þeirri spurningu hvernig farið hefði með málið ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu þegar það kom upp. „Sjálfsákvörðunarréttar okkar þarf að minnast nú þegar viðræður um ESB-aðild standa yfir,“ sagði Bjarni.

„Hefðum við fengið nokkurt sjálfdæmi um að setja hér neyðarlög?.Líklega hefði evrópska fjármálaeftirlitið stöðvað það,“ sagði Bjarni og átti þar við áform ESB um sameiginlegt fjármálaeftirlit. Full ástæða væri til að efast um að við hefðum haft sjálfdæmi um þessar mikilvægu ákvarðanir, ef þetta nýja regluverk hefði gilt hér á landi árið 2008.

Segir mest heyrast í sökudólgunum

Bjarni sagði niðurstöðuna „sigur fólksins á ofríki ríkisstjórnar sem vildi keyra samninga í gegn án þess að hlusta á mótmælaraddir, fjölmennar mótmælaraddir bæði innan þings og utan.“ Þeir, sem hefðiu samþykkt Icesave-samninga 1 og 2, hefðu ekki haft hagsmuni fullvalda þjóðar í huga.

Bjarni gerði að umtalsefni þau orð sem látin hafa verið falla í umræðunni í dag um að ekki ætti að leita sökudólga í málinu. „Þeir sem hafa hæst um það eru sökudólgarnir,“ sagði Bjarni. „Ef við ætlum að læra af þessu, þá verðum við að vera tilbúin að líta í eigin barm.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert