Vantar fullveldiskost til vinstri

Bjarni Harðarson, bóksali og fyrrverandi alþingismaður.
Bjarni Harðarson, bóksali og fyrrverandi alþingismaður. mbl.is

„Ég hef ekkert ákveðið í þessum efnum. Það hafa mjög margir haft orð á þessu við mig en ég er bara hugsi yfir þessu ennþá. Það er enn lagt til kosninga,“ segir Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og fyrrverandi alþingismaður, spurður hvort hann stefni á framboð fyrir þingkosningarnar í apríl.

Stofnuð hefur verið síða á samfélagsmiðlinum Facebook til stuðnings mögulegu framboði Bjarna undir heitinu „Bóksalann á þing“. Bjarni segir aðspurður að síðan sé ein birtingarmynd þeirra áskorana sem hann hafi fengið að undanförnu um að gefa kost á sér. Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar, sem gerð var fyrir Sunnlenska fréttablaðið, og birtar voru um miðjan desember síðastliðinn, vildu nær 44% íbúa Suðurkjördæmis sjá Bjarna sem þingmann kjördæmisins á næsta kjörtímabili.

„Ég kann afskaplega vel að meta þá hvatningu sem ég hef fengið í þessum efnum og þann stuðning sem mér hefur verið heitið og þakklátur fyrir það. Ég finn vel að fólki finnst vanta ákveðinn valkost á vinstrivængnum í þessum efnum enda eru ekki margir kostir þar fyrir þá sem setja fullveldið í forgrunn og vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Þeir kostir eru frekar hægra megin í litrófinu,“ segir hann.

Bjarni segist einfaldlega ætla að taka sér tíma til þess að taka ákvörðun um það hvort hann gefi kost á sér eða ekki og það geti farið á hvorn veginn sem er. Ef af verði segir hann aðspurður að hugsanlega gæti orðið um einstaklingsframboð að ræða. „Ég tel að núverandi fyrirkomulag útiloki slíkt alls ekki og geri það að mörgu leyti auðveldara en áður,“ segir hann. Þá gagnrýnir hann núverandi flokkakerfi sem bjóði upp á flokksræði sem aftur hafi verið nýtt til að mynda til þess að viðhalda svikum við stefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Evrópumálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert