Dorrit flutti lögheimilið frá Íslandi

Dorrit Moussaieff forsetafrú ásamt eiginmanni sínum Ólafi Ragnari Grímssyni á …
Dorrit Moussaieff forsetafrú ásamt eiginmanni sínum Ólafi Ragnari Grímssyni á svölum Alþingishússins. mbl.is/Jim Smart

Dorrit Moussaieff ákvað að færa lögheimili sitt frá Bessastöðum til London þegar horfur voru á því að Ólafur Ragnar Grímsson yrði ekki forseti lengur. Í yfirlýsingu frá forsetafrúnni segist hún hafa gert það skv. ráðleggingum lögfræðinga, en hjónum ber lögum samkvæmt að hafa lögheimili á sama stað.

Fréttablaðið greindi í dag frá því að forsetahjónin séu nú hvort með sitt lögheimilið eftir að Dorrit færði lögheimili sitt til Bretlands. Breytingin gekk í gegn í fyrra án athugasemda frá Þjóðskrá. „Að sjálfsögðu eru þau ekki búin að slíta samvistum og hún verður auðvitað hér á þjóðhátíðardaginn,“ sagði Örnólfur Thorsson forsetaritari í samtali við Fréttablaðið.

Tekur við fjölskyldufyrirtækinu af öldruðum foreldrum

Í yfirlýsingu sem Dorrit Moussaieff sendi frá sér fyrir stundu vegna fréttarinnar segir: 

„Þegar horfur voru á að eiginmaður minn yrði ekki lengur forseti gerði ég ráðstafanir til að geta sinnt meira fyrri störfum mínum í London, einkum í ljósi þess að foreldrar mínir, sem stjórnað hafa fjölskyldufyrirtækinu, eru nú háaldraðir.“

Breytingin var gerð samkvæmt ráðleggingum lögfræðinga og segir í yfirlýsingunni að ákvæði 7. gr. lögheimilislaga, um að hjón eigi saman lögheimili, verði að skoða í tengslum við ákvæði annarra laga sem fjalla um heimili, heimilisfesti og aðsetur.

„Má í því sambandi t.d. nefna ákvæði 2. mgr. 63. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. sömu laga. Í þessum ákvæðum er fjallað um heimilisfesti manna á Íslandi og kemur fram í 63. gr., sem fjallar um hjón, að svo geti verið ástatt hjá hjónum að annar makinn sé skattskyldur ótakmarkað vegna heimilisfesti hér á landi, þ.e. með lögheimili, en hinn makinn með takmarkaða skattskyldu, þ.e. ekki með lögheimili hér á landi vegna ákvæða samninga Íslands við önnur ríki eða af öðrum ástæðum,“ segir í yfirlýsingunni.

Ákvæði 63. greinarinnar eiga einkum við erlenda ríkisborgara og með samningum við önnur ríki er t.d. átt við ákvæði tvísköttunarsamninga. Þá er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt lögum um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1952 eru strangar reglur um að tilkynna skuli um aðsetursskipti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert