1% iðgjaldshækkun gæti sett samninga í hnút

Úttekt á stöðu lífeyrismála á Norðurlöndunum leiddi í ljós að …
Úttekt á stöðu lífeyrismála á Norðurlöndunum leiddi í ljós að hin Norðurlöndin miða við að lífeyrissjóðirnir greiði lífeyri sem er 70-75% af meðalævitekjum. ASÍ-sjóðirnir miða í dag við að ná um 56%. ASÍ leggur því áherslu á að bæta lífeyrisréttindi félagsmanna sinna. mbl.is/Golli

Ef lífeyrisaldur opinberra starfsmanna er hækkaður úr 65 árum í 67 ár og tekin er upp aldurstengd réttindaávinnsla er nánast hægt að eyða þeim halla sem er á A-deild Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Verði lífeyrisiðgjaldið hækkað um 1% er hins vegar alls óvíst að samkomulag takist um samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.

Þó ASÍ, Samtök atvinnulífsins, ríkið og samtök opinberra starfsmanna séu mjög nærri því að ná samkomulagi um framtíðarskipulag lífeyrismála á Íslandi er alls ekki útilokað að upp úr viðræðum slitni. Það er einkum tvennt sem getur orðið til þess að upp úr sjóði. Annars vegar vegna ágreinings um hvernig eigi að fara með 60 milljarða halla á A-deild LSR og hins vegar ef ekki næst samkomulag um kröfu opinberra starfsmanna um að laun þeirra verði samræmd almennum launum um leið og lífeyrisréttindin verða samræmd.

Töpuðu um 50 milljörðum á hruninu

Um síðustu áramót var munur á eignum og skuldbindingum A-deildar 60,9 milljarðar, en það þýðir að 12,5% halli er á sjóðnum. Talið er að nálægt 50 milljarðar af þessum halla séu tilkomnir vegna taps sem sjóðurinn varð fyrir í hruninu. Allir lífeyrissjóðir á Íslandi urðu fyrir tjóni í hruninu, en almennu lífeyrissjóðirnir hafa tekist á við þetta tap með því að skerða réttindi sjóðsfélaga. Það hafa lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna ekki gert vegna þess að samkvæmt kjarasamningum þeirra við ríkisvaldið eru lífeyrisréttindin ríkistryggð.

Nefnd hefur verið starfandi sem er að vinna að tillögum um hvernig eigi að taka á fjárhagsvanda LSR. Samhliða hefur starfað önnur nefnd sem er að vinna að tillögum um samræmingu lífeyrisréttinda fyrir alla landsmenn. Eins og fram kom í frétt á mbl.is um helgina er nefndin mjög nálægt samkomulagi.

Samkomulagið byggist á því að búið verði til eitt samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Kerfið byggist á þremur meginforsendum. Í fyrsta lagi að iðgjald í lífeyrissjóði verði 15,5% (launagreiðandi greiði 11,5% og launþegi 4%). Í öðru lagi að lífeyrisaldur verði 67 ár. Í þriðja lagi að tekin verði upp aldurstengd réttindaávinnsla.

Miðað er við að þetta kerfi skili ellilífeyrisþegum um 76% af meðalævitekjum. Í dag eru lífeyrissjóðir á vegum ASÍ að skila lífeyrisþegum lífeyri sem er um 56% af ævitekjum.

Um þessar meginlínur hefur tekist samkomulag milli ríkisins, ASÍ, SA og samtaka opinberra starfsmanna.

Eiga núverandi starfsmenn að fara í nýja kerfið eða vera í gamla kerfinu?

Það sem er enn órætt í nefndinni er hvernig opinberir starfsmenn sem greiða í A-deild LSR eiga að fara inn í þetta nýja kerfi. Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, hefur sagt að hún vilji að opinberir starfsmenn sem greiða í sjóðinn í dag haldi óbreyttum réttindum, en að nýir starfsmenn fari í nýja kerfið. Hún leggur áherslu að það eigi ekki leysa vanda A-deildar með nýju lífeyriskerfi. Ríkið eigi að standa við skuldbindingar sínar við sjóðinn, óháð því samkomulagi sem nú er í fæðingu.

Fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn LSR vilja að iðgjald ríkisins í A-deild LSR verði hækkað um eitt prósentustig um áramót. Samkvæmt gildandi lögum hefur stjórn sjóðsins frest til 1. október að taka ákvörðun um það, eins og fram kom í fréttaskýringu á mbl.is á laugardaginn.

Fyrirheit SA voru háð því að iðgjaldið yrði 15,5%

Ljóst er að ef stjórn LSR tekur ákvörðun um að hækka lífeyrisiðgjaldið úr 15,5% í 16,5% getur það haft mikil áhrif vilja Samtaka atvinnulífsins til að hækka iðgjaldið í almennu sjóðina úr 12% í 15,5%.

SA gáfu fyrirheit um þessa hækkun í bókun sem fylgdi kjarasamningum sem gerðir voru 2011. Þar segir: „Samningsaðilar eru sammála um að halda áfram vinnu að samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaði.  Yfirlýsingu þessari er ætlað að auðvelda sátt um meginþætti lífeyrismála.  Meginmarkmiðið er að allir lífeyrissjóðir á vinnumarkaðnum starfi á sjálfbærum grunni og að lífeyrisréttindi þróist í samræmi við þarfir fyrir ásættanlegan lífeyri.  Á vettvangi samningsaðila verður unnið á þeim forsendum að hækka þurfi iðgjöld til lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði úr 12% í 15,5% á árunum 2014 - 2020.“

SA líta svo á að ef vinnuveitendur fallast á að hækka iðgjaldið í 15,5%, en ríkið hækkar iðgjaldið í LSR í 16,5% þá hafi mistekist að ná markmiði um jöfnun lífeyrisréttinda. Aðilar vinnumarkaðarins spyrja líka hvað gerist ef LSR verður aftur fyrir fjárhagsáfalli. Verður þá iðgjaldið aftur hækkað?

Breyttar reglur gætu eytt halla A-deildar

En hvernig á þá að leysa vanda A-deildar? Samkvæmt heimildum mbl.is liggja fyrir útreikningar um að hægt er að fara langt með að eyða halla A-deildar með því að hækka lífeyrisaldur sjóðsfélaga úr 65 árum í 67 ár og taka upp aldurstengda réttindaávinnslu.

Þessar tvær breytingar fela í sér skerðingar á réttindum sjóðsfélaga. Þeir tapa réttindum ef lífeyrisaldur verður hækkaður. Breytt réttindaávinnsla felur líka í sér skerðingu réttinda. Samkvæmt reglum LSR ávinnur tvítugur sjóðsfélagi sér sömu réttindi og sjóðsfélagi sem kominn er á sjötugsaldur, jafnvel þótt iðgjaldið sem sá tvítugi greiðir eigi eftir að safna vöxtum 40-50 ár. Lífeyrissjóðir á almennum markaði eru búnir að breyta sínum reglum á þann hátt að stig sem ungur sjóðsfélagi safnar eru verðmætari en stig sem gamall sjóðsfélagi safnar.

Eins og kerfið er í dag væri skynsamlegt fyrir mann að vinna fram undir fimmtugt hjá einkafyrirtæki og gerast síðan opinber starfsmaður síðustu 20 ár starfsævinnar. Þar með nær hann að hámarka lífeyrisréttindi sín.

Ef samþykkt verður að leysa vanda A-deildar LSR með því að hækka lífeyrisaldur og breyta réttindaávinnslunni getur það þýtt talsverða skerðingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna sem eru fimmtugir og eldri. ASÍ og SA benda hins vegar á að þessi skerðing verði ekki meiri en sjóðsfélagar á almenna markaðinum hafi þegar þurft að taka á sig.

Hafa borgað betri lífeyrisréttindi með lægri launum

Opinberir starfsmenn hafa alltaf haldið því fram að þeir hafi orðið að borga betri lífeyrisréttindi í verri launum. Nefnd er núna að skoða hversu mikill munur er í reynd á launum opinberra starfsmanna og annarra. Ekki liggur fyrir hvort samkomulag verður í nefndinni.

SA hafa lýst því yfir að ef vinnuveitendur eiga að hækka iðgjald í lífeyrissjóðina verði að taka tillit til þess þegar samið verður um launabreytingar í næstu kjarasamningum. Forseti ASÍ sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að iðgjald í lífeyrissjóð væri hluti af launakjörum og menn áttuðu sig á að hækkun þess þýddi að minna yrði eftir til almennra launabreytinga.

Opinberir starfsmenn fái 0,5% launahækkun í 7 ár umfram aðra

ASÍ og SA hafa rætt um að hækka iðgjaldið um 0,5 prósentustig á ári næstu 7 ár. Hugsanlegt er að samhliða fái opinberir starfsmenn 0,5% meiri launahækkanir á ári næstu 7 árin en aðrir launþegar.

Heimildarmenn mbl.is hafa áhyggjur af því að ef fallist verður á kröfu BHM um að nýir starfsmenn taki lífeyrisréttindi eftir nýju kerfi en að eldri starfsmenn verði í gamla kerfinu sé verið að búa miklar flækjur í kerfinu, sérstaklega ef samhliða á að hækka laun opinberra starfsmenna vegna skertra lífeyrisréttinda. Þá verði til kerfi þar sem sumir opinberir starfsmenn eru með betri lífeyrisréttindi en verri laun og þeir vinni við hlið starfsmanna sem eru á hærri launum en með verri lífeyrisréttindi.

Samræmt kerfi þýðir ekki einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn

Í umræðum um lífeyrismál síðustu daga hefur heyrst sá misskilningur að samræmt lífeyriskerfi fyrir alla starfsmenn þýði að til verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Það er alls ekki svo. Í nefndinni hefur hins vegar verið rætt um hvort herða ætti ákvæði laga um lágmarksstærð lífeyrissjóða, en lögin kveða á um að sjóðsfélagar megi ekki vera færri en 800. Engin ákvörðun hefur verið tekin um þetta atriði.

Innan ASÍ er stuðningur við fækkun lífeyrissjóða og hefur verið rætt um að ASÍ-sjóðirnir verði ekki nema 3-5. Þegar starfsendurhæfingarsjóðir voru stofnaðir fyrir nokkrum árum var ákveðið að sjóðsfélagar mættu ekki vera færri en 10 þúsund.

Innan nefndarinnar, sem er að vinna að tillögum um lífeyriskerfið, hefur verið skoðað hvort meiri áhætta sé í rekstri smærri sjóða en stóru sjóðanna. Sú skoðun leiddi í ljós að sjóðir með færri en 10 þúsund sjóðsfélaga séu í meiri hættu gagnvart tilviljanakenndum sveiflum en stærri sjóðir. Ekki sé hins vegar munur á ávöxtun.

Kynslóðirnar hafa ólíka stöðu þegar kemur að lífeyrismálum. Þessi drengur …
Kynslóðirnar hafa ólíka stöðu þegar kemur að lífeyrismálum. Þessi drengur mun fá mun betri eftirlaun, þegar hann kemst á eftirlaun, ef sá eldri. mbl.is/Ómar Óskarsson
Nýja lífeyriskerfið byggir á því að fólk fái um 76% …
Nýja lífeyriskerfið byggir á því að fólk fái um 76% af meðalævitekjum þegar það kemst á eftirlaun. Sjóðir á vegum ASÍ miða í dag við 56%. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert