Vilja athugun á hagkvæmni lestarsamgangna

Úr safni.
Úr safni. AFP

Þingmenn fimm flokka hafa lagt fram þingsályktunartillögu um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna. Fram kemur, að þeir vilji að Alþingi álykti að fela innanríkisáðherra láti kanna, í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög og stofnanir, hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. 

Kannaðir verði kostir þessa samgöngumáta og gallar, sem og hugsanlegar leiðir. Sjónum verði einkum beint að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum, umhverfislegum og skipulagslegum áhrifum. Í þessu skyni verði leitað til sérfræðinga innan lands og utan. Niðurstöður athugunarinnar liggi fyrir í árslok 2014.

 Greint hefur verið frá því að sérstakur samráðshópur vinni að því að kanna möguleika á lagningu háhraðalestar á milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Talið er að framkvæmdin geti kostað um 100 milljarða kr. Ef af verður færi lestin á milli á 15–20 mínútum, en hún gæti verið annaðhvort segulhraðalest eða rafhraðalest og náð 300–400 km hraða á klukkustund. Borgarráð Reykjavíkur mun hafa ákveðið að leggja 2,5 millj. kr. í verkefnið. Á meðal þeirra sem þátt taka í því auk borgarinnar eru Ístak, Isavia, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Landsbankinn og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

Þessi könnunarvinna setur lestarmál milli Keflavíkur og Reykjavíkur og einnig innan höfuðborgarsvæðisins á dagskrá á nýjan leik. Ljóst má vera að áform af þessum toga kalla á aðkomu stjórnvalda. Þess vegna er full ástæða til að fela innanríkisráðuneytinu, í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög og stofnanir, og eftir atvikum aðra aðila, svo sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Isavia o.fl. að vinna heildstæða úttekt og athugun á málinu,“ segir í greinargerð.

Flutningsmenn tillögunnar eru: Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert