„Þýddi að ég leiddist út í pönk og pólitík“

Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sá sem hér stendur stundaði nám í framhaldsskóla á Íslandi í samtals þrjú ár fyrir um það bil þrjátíu árum og það voru verkföll öll þau ár. Fyrsta árið lærði ég að drekka mikið kaffi og lærði ég texta Megasar utan að. Annað árið drakk ég meira kaffi og rifjaði upp texta Megasar. Þriðja árið fékk ég ógeð á kaffi og fór út á vinnumarkaðinn.“

Þannig hófst ræða sem Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, flutti í dag í umræðum um stöðu framhaldsskólanna. Hann sagðist hafa frestað því síðan að fara í skóla og væri fyrir vikið enn á vinnumarkaðinum. „Þetta hefur haft mikil áhrif á mitt líf og ég ætla svo sem ekki að kvarta hvernig fór en það eru kannski ekki jafn heppnir og ég að enda á Alþingi. En þetta þýddi það að ég leiddist út í til dæmis pönk og pólitík og varð sýniþörfinni að bráð sem ég hefði kannski ekki orðið hefði ég langskólagenginn sérfræðingur sem hefði orðið góður og gegn samfélagsþegn.“

Þetta hafi verið fyrir þrjátíu árum. Þetta væri dæmi um það hvernig verkföll gætu haft áhrif á líf fólks áratugum saman sem væri grafalvarlegt mál. Brottfall úr íslenskum framhaldsskólum væri mikið og óstöðugleiki og óvissa um skólastarfið gerði ekki annað en að auka á brottfallið. Það hefði ekki bara áhrif þennan veturinn eða líf þeirra sem væru í framhaldsskólunum í dag og kynnu að hætta námi heldur til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert