Dreifing mynda „ofbeldisfullur gjörningur“

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Femínistafélag Íslands lýsir yfir miklum áhyggjum vegna aukins fjölda mála þar sem kynferðislegum myndum og myndböndum af fólki er dreift án samþykkis. „Dreifing slíkra mynda og myndbanda er ofbeldisfullur gjörningur og óhugnanleg afleiðing og birtingarmynd klámvæðingar. Fjölgun mála af þessu tagi verður að taka alvarlega því að afleiðingarnar fyrir þolendur eru skelfilegar,“ segir í ályktun aðalfundar félagsins sem fram fór í gær. 

Femínistafélag Íslands krefst þess að yfirvöld bregðist við þessu ástandi. „Skoða verður lagarammann og hver staða þolenda er í þessum málum. Dreifing mynda og myndbanda þar sem einstaklingar eru undir lögaldri er barnaklám, og það verður að vera forgangsmál lögreglu að uppræta það.

Femínistafélagið skorar á stjórnvöld að veita auknu fjármagni í forvarnir, m.a. með fræðslu um traust, ábyrgð og virðingu í samskiptum. Einnig þarf að styðja vel við aðila sem vinna með þolendum kynferðisofbeldis til að skapa sterkara stuðningsnet fyrir þolendur, bæði í formi sálrænnar aðstoðar og lögfræðilegrar,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Aðalfundur Femínistafélags Íslands var haldinn í gær. Á fundinum var kosið í nýtt ráð félagsins en í því sitja frá fyrra ári: Auður Alfífa Ketilsdóttir, Brynhildur Heiðar- Ómarsdóttir Elva Björk Sverrisdóttir, Guðni Rúnar Jónasson og Una Hildardóttir. Nýjar ráðskonur eru: Eyrún Eyþórsdóttir, Gísli Garðarsson, Katrín Þorgerðar Pálmadóttir, María Lilja Þrastardóttir, Ólöf Dóra Bartels Jónsdóttir, Rósa Björk Bergþórsdóttir og Þóra Kristín Þórsdóttir.

Fundur hefur verið boðaður í ráðinu en það skiptir með sér verkum á sínum fyrsta fundi og kýs talskonu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert