Tjónið hleypur á hundruðum milljóna

Enn rýkur úr rústunum í Skeifunni. Slökkviliðsmenn eru enn að …
Enn rýkur úr rústunum í Skeifunni. Slökkviliðsmenn eru enn að störfum. Þórður Arnar Þórðarson

Það er ljóst að tjónið í Skeifunni hleypur á hundruðum milljóna króna, samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum tryggingafélaganna. Lögreglan er að taka við brunavettvanginum af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en einhverjir dagar eru í að hægt verði að ljúka rannsókn. Verslunin Víðir slapp ótrúlega vel og verður opið þar í dag. Önnur fyrirtæki í húsaþyrpingunni sem brann verða væntanlega lokuð í dag.

Öll tryggingafélögin tryggja einhver fyrirtækjanna sem starfa á brunasvæðinu en Sjóvá tryggir Griffil. Þrátt fyrir að byggingin sem hýsir Fönn sé ekki ónýt eru innanstokksmunir væntanlega gjörónýtir og reyk- og sótskemmdir.

Að sögn Ara Guðmundssonar, forstjóra Fannar, hefur hann ekki fengið að fara inn í húsnæðið en hann bíður ásamt starfsfólki sínu í húsnæði veitingastaðarins Spice í sama húsi.

Jóhann Karl Þórisson, sem stýrir aðgerðum á vettvangi af hálfu lögreglunnar, segir að tæknideild lögreglunnar muni taka við rannsókn á eldsupptökum en einhverjir daga muni líða þar til rannsókn lýkur. Tæknideildin mun núna taka yfirlitsmyndir af vettvangi og svo verður væntanlega farið í að rífa húsið þar sem Griffill er til húsa og húsnæði á vegum Fannar þar á móti, sem snýr að bílaleigu Akureyrar. 

Ekki verður hægt að fara inn í rústirnar strax því fyrst verður að rífa útveggi og burðarbita, allt verði gert til þess að tryggja vettvanginn og undir þetta taka fulltrúar tryggingafélaganna sem mbl.is ræddi við að loknum fundi þeirra á brunastaðnum í morgun.

Ótrúlegt er hvað verslunin Víðir hefur sloppið vel og verður verslunin opin með hefðbundnum hætti í dag.

Mikla athygli hefur vakið hversu hratt eldurinn breiddist út í gærkvöldi en mikill eldsmatur var á staðnum, fatnaður, bækur og alls konar pappír. 

Í dag mun lögregla girða af brunavettvanginn svo fyrirtæki í nágrenninu geti haldið starfsemi sinni gangandi. Hjá bílaleigu Akureyrar eru menn mættir í vinnu en í gærkvöldi voru starfsmenn fengnir til þess að forða bílum fyrirtækisins frá. Nú er háannatími í starfsemi bílaleigunnar og því mikilvægt að hún geti starfað áfram.

Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert